152. löggjafarþing — 47. fundur,  7. mars 2022.

um fundarstjórn.

[15:54]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að taka undir með hv. þm. Andrési Inga Jónssyni um að flýta frekar fyrir máli sem getur leyst þann vanda sem við horfum fram á núna, sem er að atvinnuleyfi fylgir ekki dvalarleyfi af mannúðarástæðum. En þetta er nú eitt af því sem ég benti hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra á, og hann sá sig knúinn til að furða sig á því að mér þætti eitthvað athugavert við það. Nóg um það.

Það að dómsmálaráðherra vilji koma í gegnum þingið frumvarpi sem neitar flóttafólki um grundvallarmannréttindi, eins og þau að það geti treyst heilbrigðisstarfsfólki sem það á í samskiptum við bara að lágmarki eins og fangar geta treyst heilbrigðisstarfsfólkinu sem þeir eiga í samskiptum við, til þess að flóttafólk frá Úkraínu geti fengið sjálfkrafa atvinnuleyfi frekar en að vera sett á framfærslu sveitarfélaga, finnst mér frekar vondir valkostir, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, eiginlega bara frekar ógeðfelldir. Ég legg því einnig til að frumvarp hv. þingkonu Arndísar Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur um þessa einföldu breytingu verði tekið í forgang til að hægt sé að afgreiða þetta mál án þess að setja okkur einhverja afarkosti.