152. löggjafarþing — 47. fundur,  7. mars 2022.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga o.fl. .

60. mál
[16:40]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Forseti. Þegar rætt er um fólk á vanskilaskrá er gott að muna eftir því að það eru þúsundir ef ekki tugþúsundir á vanskilaskrá af ástæðum sem þeir báru enga sök á, t.d. vegna aðstæðna sem mynduðust eftir síðasta hrun. Um var að ræða fólk sem hafði það eitt sér til saka unnið að reyna að koma sér þaki yfir höfuðið. Þarna bregðast allar forsendur og allt fellur í kringum það. Það er að spila á leikvelli sem það réð engu um sjálft, leikvelli sem aðrir bjuggu til og fóru mjög glannalega um. Þeir hinir sömu lentu hins vegar ekki á vanskilaskrá, þeir fengu afskrifað. Venjulegt fólk sem ekki bar neina sök á ástandinu lenti á vanskilaskrá og sumum úr þeim hópi hefur ekki tekist að koma sér þaðan aftur, einfaldlega af því að þau fá ekki tækifæri til þess. Þetta er upp til hópa ekki fólk sem hefur verið svo áhættusækið og hefur farið svo óvarlega að ekki sé á nokkurn hátt hægt að eiga við það og þess vegna megi ekki lána því. Þetta er fólk sem oft og tíðum hefur lent í óviðráðanlegum aðstæðum, hvort sem það heitir bankahrun, sjúkdómar eða slys eða hvað sem er annað — einhvers konar forsendubrestur hefur átt sér stað í lífi þeirra. Það sem við þurfum að gera sem þjóð er að hjálpa fólki að rísa upp aftur, ekki setja girðingar út um allt sem koma í veg fyrir að það geti risið upp aftur.

Það berast sífellt fréttir af fólki sem ekki fær greiðslumat, t.d. til að koma sér í eigið húsnæði eða eitthvað þess háttar, jafnvel þó að það hafi staðið skil á leigu í mörg ár. Það er líka annað sem mætti alveg nefna, í sambandi við það sem gerðist eftir hrun, og það er að í mörgum tilfellum voru lánin hreinlega ólögmæt og eina vörn fólks var í raun að borga ekki, eins fáránlega og það hljómar, vegna þess að ef fólk borgar er það búið að viðurkenna lánið sem er ólögmætt. Þetta er flækja sem á slæmri íslensku er kölluð „Catch 22“. Við þurfum að búa til kerfi þar sem fólk getur risið upp aftur. Þar fyrir utan er algjörlega ótækt að vanskilaskrá sé í höndum einkaaðila eins og Creditinfo. Það væri mun nær að bankarnir sæju um þetta sjálfir og tækju smá ábyrgð á lánveitingum sínum í staðinn fyrir að vísa alltaf í þriðja aðila sem enginn getur nokkurn tímann nálgast.