152. löggjafarþing — 47. fundur,  7. mars 2022.

staðan í Úkraínu, munnleg skýrsla utanríkisráðherra. - Ein umræða.

[17:43]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Frú forseti. Við sem vorum hér að horfa fram á bjartari tíma eftir tveggja ára Covid-martröð ásamt öllum öðrum þjóðum sem byggja þennan hnött okkar bjuggumst vart við því að næsta áskorun yrði svo gríðarleg sem raun ber vitni. Það gefur auga leið að mann setur hljóðan við þær fréttir sem berast bæði í gegnum samfélagsmiðla og á vefmiðlum frá degi til dags. Nú þegar stríðið í Úkraínu hefur staðið í 12 daga er ekkert lát á þeim hörmungum sem dynja á saklausum borgurum þar í landi. Talið er að yfir ein milljón manna hafi flúið landið til nágrannaríkja. Hundruð óbreyttra borgara hafa látið lífið og þúsundir slasast. Íbúar Evrópu eru sem lamaðir yfir stöðunni sem fer versnandi með hverjum deginum. Vopnahlé halda ekki, lyf og nauðsynjar til að sinna slösuðum og sjúkum eru af skornum skammti og yfirvöld í Rússlandi forherðast í markmiðum sínum. Bilunin er slík að jafnvel kjarnorkuver eru ekki einu sinni undanskilin árásum.

Ekkert sem við höfum séð frá seinni heimsstyrjöld kemst í hálfkvisti við þann flóttamannavanda sem blasir við í kjölfar þessarar innrásar. Svo vægt sé til orða tekið þá verður þetta gríðarlegt verkefni fyrir þjóðir Evrópu og þjóðir hins vestræna heims að mæta þessu góða fólki í neyð og skjóta yfir það skjólshúsi.

Líkurnar á því að stríðið breiðist út eru heldur ekki alveg óhugsandi en að sjálfsögðu ber maður þá von í brjósti að svo verði ekki. Atlantshafsbandalagið hefur tekið það skýrt fram að hernaðaríhlutun komi ekki til greina af hálfu þess enda er bandalagið varnarbandalag og Úkraínumenn eru ekki þar innan. Staðan kallar þó á gjörbreytta stöðu í öryggismálum í Evrópu, enda ljóst að yfirvöld í Rússlandi virðast ekki fara eftir alþjóðlegum leikreglum. Kannski er það rétt sem hér hefur komið fram í umræðunni að vestrænar þjóðir hafa að einhverju leyti sofið á verðinum en frá seinna stríði höfum við einmitt reynt að beita þeim aðferðum að höfða til þjóða með auknum viðskiptum, auknum samskiptum á öllum sviðum, með þá von í brjósti að í kjölfarið fylgi líka lýðræði og sterkar stofnanir. Það er óhætt að segja að það hafi ekki tekist miðað við stöðuna í Úkraínu að laða Rússa í þá átt. NATO mun þurfa að efla varnir aðildarríkjanna, þó einkum í námunda við þau stríðsátök sem geisa nú í Evrópu.

Sú fordæmalausa staða sem blasir við í Úkraínu kallar á sterk viðbrögð og að mínu viti, virðulegi forseti, hefur einmitt ekki staðið á þeim. Viðbrögðin eru jafnvel meiri og sterkari en ég sjálfur gat vonast eftir. Ég er nýkominn heim af ráðstefnu Evrópunefndar þjóðþinga ESB sem fór fram 3.–5. mars. Sem aðili er Ísland þar áheyrnarfulltrúi. Frakkar hafa nýverið tekið við formennsku og var yfirskrift ráðstefnunnar Uppbygging eftir Covid. Ætlunin var að rýna helstu áherslumál sem sneru að formennsku Frakka og þá sérstaklega út frá þeim áskorunum sem heimsfaraldur hefur haft í för með sér. Ætlunin var að ræða um viðspyrnu, loftslagsmál, orkuskipti og framtíð sambandsins. Það er skemmst frá því að segja að stríðsátökin í Úkraínu yfirskyggðu alla umræðu frá fyrstu mínútu. Með stuttum fyrirvara var ákveðið að sérstök umræða færi fram um stríðsátökin og þá stöðu sem upp er komin í öryggismálum. Það var fagnaðarefni að heyra algjöran einhug á fundinum meðal þeirra Evrópuríkja sem þar tóku þátt. Áhyggjur allra sem tóku til máls sneru að sjálfsögðu að stöðunni í Úkraínu og öryggismálum en ekki síst orkumálum. Það kom fram í máli framsögumanns á þinginu á ráðstefnunni að Evrópuríki kaupa olíu og gas af Rússum fyrir 10% hærri fjárhæð á ári en stjórnvöld í Rússlandi leggja til hernaðar. Segja má að viðskiptin, fjármagni stríðsvélina og gott betur en það. Með því að gera Evrópuríkin háð orku frá Rússlandi hefur Pútín kannski náð tangarhaldi sem aðeins verður leyst með mjög íþyngjandi kostnaði fyrir íbúa í Evrópuríkjunum. Fari það svo að orkusamningum verði sagt upp er óvíst hvernig tryggja eigi næga orku í kjölfarið. Mikilvægi þess að hraða orkuskiptum er því ótvírætt fyrir Evrópuríkin sem að sjálfsögðu eru farin að stíga mjög stór skref í þá átt.

Virðulegi forseti. Ég held að við Íslendingar getum eflaust hjálpað til með því hugviti sem hér hefur skapast á undanförnum árum í kringum endurnýjanlega orku, hvort sem það er jarðvarmi eða fallvötn sem við höfum virkjað, og við stöndum mjög vel miðað við samanburðarþjóðir á því sviði. En við verðum einnig að taka stöðuna alvarlega og rýna okkar áætlanir. Við þurfum að líta til þess að orkuskiptin hér nái fram að ganga, að við séum sjálfbær ef eitthvað kemur upp á. Þeir sorglegu atburðir sem nú eiga sér stað í Úkraínu kalla á aukna umræðu um öryggismál þjóðarinnar. Ísland sem frjálst og fullvalda ríki verður að vera tilbúið til þess að axla sína ábyrgð. Við þurfum að huga að matvælaöryggi okkar, orkuöryggi, sem áður hefur verið nefnt, netöryggi og tryggja að við séum í stakk búin til að mæta því óvænta.

Ég nefndi það í upphafi ræðu minnar að vonir hefðu staðið til þess að það yrði ekki gerð alvara úr þessari ógn. Því kom flatt upp á þingmenn á umræddum fundi og það kom flatt upp á flesta málsmetandi aðila að farið væri í allsherjarinnrás í Úkraínu. Ég skil ekki þann hugsunarhátt sem þar býr að baki en það er einmitt hið óþekkta sem við þurfum að gera okkur grein fyrir. Hvort sem það eru stríðsátök, heimsfaraldur eða aðrar mögulegar ógnir þá þurfum við alltaf að standa klár á því að við getum mætt þeim. Það getur kallað á aukin útgjöld. Við eigum allt okkar undir því að varnir landsins séu tryggðar. Sú trygging byggir á vilja okkar til að láta ekki okkar eftir liggja. Ég hef trú á því, virðulegi forseti, að á næstu dögum og vikum og mánuðum munum við sjá breyttar áherslur sem snúa fyrst og fremst að því að horfa á öryggismál sem þjóðaröryggismál númer eitt. Ég vonast til þess að okkur farnist vel í að taka þátt með öðrum þjóðum í þeirri vegferð. Ég held að íslenska þjóðin, sem er vel menntuð og hefur gengið í gegnum ýmislegt, þó að við blessunarlega höfum ekki þurft að þola stríð, getum lagt okkar lóð á vogarskálarnar í þeirri vegferð og höldum áfram að vera þjóð meðal þjóða. Það er gríðarlega verðmætt að vera frjáls og fullvalda þjóð. Ég fann vel fyrir því á umræddum fundi þar sem ég sat með flottum fulltrúum m.a. frá Kosovo, en við munum öll eftir þeim hörmungum sem þar dundu yfir, og þingmanni frá Georgíu, en ráðist var á hans land 2008. Ég fann fyrir því að ég var heppinn að búa á Íslandi.