152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Það er ljótt að plata, sagði formaður Framsóknarflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson, ábúðarfullur og alvörugefinn í sjónvarpsþætti daginn fyrir síðustu alþingiskosningar. Þá var reyndar enginn að plata, en auðvitað geta allir, hvort sem þeir eru Framsóknarmenn eða ekki, tekið undir þessa almennu siðfræði sem við kennum börnunum okkar á hverjum degi. Það er nefnilega ljótt að plata.

Þessi orð rifjuðust óþægilega mikið upp þegar hlustað var á orðaskipti formanns Framsóknarflokksins og formanns Samfylkingar hér í þingsal í síðustu viku. Þá var rætt um orð varaformanns Framsóknar og viðskiptaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, sem vöktu mikla athygli, um að ofurhagnað bankanna ætti að nýta til að lækka vexti á húsnæðislánum heimilanna. Í leiðinni var því hótað að annars yrði bankaskattur endurvakinn. Hinir stjórnarflokkarnir skutu þetta strax hressilega niður, reyndar með því þvingaða og kurteislega orðalagi sem gjarnan fylgir ástlausum hjónaböndum. Ríkisstjórnin hafði hvorki rætt þetta né vildi hún fara þessa leið. Formaður Framsóknarflokksins fullyrti sem sagt hér á Alþingi í síðustu viku að bankarnir hefðu hlustað eftir orðum viðskiptaráðherra og farið algjörlega eftir þeim, algerlega. Með öðrum orðum, það er skoðun Sigurðar Inga Jóhannssonar að bankarnir hafi hækkað vextina minna en þeir hefðu annars gert vegna þess að Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra sagði þeim að gera það. Hið rétta er að það er ekkert sem bendir til þess að viðskiptabankarnir hafi gert þetta. Þeir brugðust nákvæmlega eins við stýrivaxtahækkun Seðlabankans nú síðast og þeir gerðu áður, til að mynda í fjögur skipti á síðasta ári. Orð Lilju breyttu engu, ekki nokkrum sköpuðum hlut, eins og lesa má um í samantekt ritstjóra Kjarnans sem hann birti í leiðara fyrir fjórum dögum.

Eftir þetta stendur því þrennt: Í fyrsta lagi voru orð viðskiptaráðherra án allrar innstæðu. Þetta var pólitísk lýtaaðgerð til að fegra ásjónu ríkisstjórnar sem boðaði lágvaxtaumhverfi fyrir kosningar en getur ekki staðið við það. Í öðru lagi kristallast í þessu það viðhorf forystu Framsóknarflokksins að sjálfstæðir viðskiptabankar eigi að hlusta eftir duttlungum stjórnmálamanna þegar kemur að vaxtaákvörðunum. Og í þriðja lagi: Það er ljótt að plata. (ÞKG: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: Heyr, heyr.)