152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

framtíð félagslegs húsnæðis.

[14:15]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Húsnæði er ekki eins og hver önnur neysluvara sem á eingöngu að lúta lögmálum markaðarins. Húsnæði er sjálfsögð mannréttindi og aðgengi fólks að húsnæði er grundvallaratriði, a.m.k. í öflugu velferðarsamfélagi. Aðgerðir stjórnvalda síðustu árin hafa engan veginn dugað með þeim afleiðingum að aðstæður margra á húsnæðismarkaði hafa versnað. Í stað þess að vinna að langtímalausnum hafa stjórnvöld frekar reynt að slökkva elda. Í sumum tilfellum hafa aðgerðir ríkisstjórnarinnar jafnvel ýkt vandann með því að ýta undir eftirspurn án þess að setja nokkurt púður í uppbyggingu.

Frá því að félagslega íbúðakerfið var lagt niður af Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum um síðustu aldamót hefur framboð á húsnæði fyrir fólk undir meðaltekjum dregist saman og sveiflur á húsnæðismarkaði hafa aukist. Gildistaka laga um almennar íbúðir og reglugerð um stofnframlög til uppbyggingar leiguíbúða á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga árið 2016 var vissulega skref í rétta átt en félagslegar íbúðir eru enn of fáar og tilraun til að endurreisa félagslega íbúðakerfið er enn á algjöru frumstigi, herra forseti. Gögn frá Hagstofunni sýna nefnilega að þeim sem bjuggu við þröngan húsakost fjölgaði úr 25.000 manns árið 2005 í tæplega 50.000 manns árið 2018 og þessari þróun þarf einfaldlega að snúa við. Þetta helst í hendur við að húsnæðiskostnaður hefur hækkað um 40% umfram ráðstöfunartekjur á síðustu 25 árum. Það er fyrirséð að vandi margra mun aukast við ógnarmiklar verðhækkanir á húsnæðismarkaði og hækkandi vaxtastig. Greiðslubyrði af húsnæðislánum heldur áfram að þyngjast, leiga hækkar og það verður sífellt erfiðara fyrir fólk á leigumarkaði að komast inn á fasteignamarkaðinn.

Ástandið sem við sjáum á húsnæðismarkaði í dag er ein afleiðing þess að við búum ekki við almennilegt félagslegt húsnæðiskerfi. Það er þörf á grundvallarstefnubreytingu í húsnæðismálum til að skapa heilbrigðan húsnæðismarkað til langrar framtíðar. Við í Samfylkingunni teljum að lausnin felist í stórauknum framlögum til að byggja hagkvæmt húsnæði. Það dregur úr sveiflum og neikvæðum áhrifum á verðlag og vexti. Það er besta leiðin til að auka framboð og stilla af húsnæðisverð. Þetta er hins vegar langtímaverkefni sem stjórnvöld verða að hafa forgöngu um í samvinnu við verkalýðshreyfinguna, húsnæðisfélög í óhagnaðardrifnum rekstri og í samvinnu við alla flokka hér á þingi.

Það er ekki eðlilegt ástand að ákveðinn hluti þjóðarinnar hefur ekki ráð á að eignast og jafnvel ekki leigja á því markaðsverði sem er í dag. Þetta á við um tekjulægsta fólkið, t.d. einstæða foreldra, unga námsmenn, öryrkja og eldri borgara. Húsnæðiskostnaður er stærsti útgjaldaliður flestra heimila og verðsveiflur á fasteignamarkaði, miklar breytingar á vöxtum og ófyrirsjáanleiki um leigu skapa óöryggi og ýta undir ójöfnuð og fátækt í landinu. Stjórnvöld bera því mikla ábyrgð og eiga að beita sér af festu. Fyrir utan að auka efnahagslegan stöðugleika og tryggja viðkvæmum hópum öruggt húsnæði geta stjórnvöld einnig með stefnu sinni um uppbyggingu sett kröfur um gæði, aðgengi að almenningssamgöngum og aukið nýsköpun í þróun bygginga.

Herra forseti. Fyrsta skrefið er að hraða uppbyggingu á félagslegu húsnæði um leið og mótuð er langtímastefna. Þingmenn Samfylkingarinnar hafa þegar lagt fram þingsályktunartillögu um uppbyggingu á félagslegu húsnæði þar sem við leggjum til að Alþingi feli ríkisstjórninni að efla almenna íbúðakerfið með uppbyggingu 500 leigu- og búseturéttaríbúða á hverju ári umfram það sem nú þegar hefur verið ákveðið og gera þetta í samstarfi við húsnæðisfélög í óhagnaðardrifnum rekstri. Þingsályktunartillaga þessi er eitt af forgangsmálum Samfylkingarinnar enda öruggt húsnæði sjálfsögð mannréttindi. Nú þegar við siglum inn í kjaraviðræður munu húsnæðismálin þurfa að leika mjög stórt hlutverk og munu hugsanlega ráða úrslitum um hvernig til tekst í framhaldinu. Þörfin er mikil og ljóst að það verður ekki lengur beðið eftir brýnum aðgerðum ríkisstjórnarinnar á húsnæðismarkaði. Ég hvet ríkisstjórnina til dáða. Önnur fjögurra ára stöðnun í húsnæðismálum er ekki í boði.