152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

framtíð félagslegs húsnæðis.

[14:21]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga umræðuefni. Ríkisstjórnin hefur nú þegar skipað starfshóp um umbætur á húsnæðismarkaði sem ætlað er að fjalla um leiðir til að auka framboð til að mæta uppsafnaðri og fyrirsjáanlegri íbúðaþörf ólíkra hópa til lengri og skemmri tíma. Í starfshópnum eru fulltrúar ríkis og sveitarfélaga sem og heildarsamtaka á vinnumarkaði. Hópurinn er nú að störfum og markmiðið er að hann skili tillögum að aðgerðum til að auka framboð íbúða til að mæta þörf. Hingað til hefur skort yfirsýn varðandi framboð lóða og eftirfylgni með því að þær séu síðan í samræmi við þær húsnæðisáætlanir sem sveitarfélögin hafa sett sér. En núna í lok ársins 2021 og í upphafi árs 2022 hafa sveitarfélögin skilað stafrænum húsnæðisáætlunum til HMS þar sem í fyrsta skipti verða til samræmdar upplýsingar um mat sveitarfélaga á íbúðaþörf og áætlanir sveitarfélaga um hvernig þeirri þörf verði mætt. Í fyrsta sinn liggja því fyrir upplýsingar um heildaríbúðaþörf á landinu, lóðaframboð og áætlaða uppbyggingu niður á ár. Á sama tíma birtast í mannvirkjaskrá HMS rauntímaupplýsingar um fjölda íbúða í byggingu þannig að nú getum við fylgst með því nánast í rauntíma hvernig áætlanir sveitarfélaga um uppbyggingu ganga eftir. Þessar upplýsingar höfðum við ekki fyrir ári og í rauninni ekki einu sinni fyrir þremur mánuðum, en það er einmitt á grundvelli svona upplýsinga sem við viljum móta okkar stefnu og meta hvaða stuðnings er þörf til að stuðla að stöðugleika á þessum mikilvæga markaði. Flutningur á fasteignaskrá til HMS er liður í þessu sama.

Sá ráðherra er hér stendur leggur mikla áherslu á uppbyggingu félagslegs húsnæðis um allt land og hefur lagt inn tillögur í fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027 um verulega aukningu fjármuna til að fjölga uppbyggingu íbúða fyrir tilstuðlan opinbers húsnæðisstuðnings, svo sem með aukinni uppbyggingu innan almenna íbúðakerfisins, hlutdeildarlána, leiguíbúðum og eignaríbúðum á landsbyggðinni. Undanfarin ár hefur ríkið komið að uppbyggingu um þriðjungs nýrra íbúða og áhugi minn stendur til þess að hækka það hlutfall við núverandi aðstæður til að tryggja aukið húsnæðisöryggi ólíkra félagshópa, þar á meðal eldra fólks og fatlaðs fólks, eins og lögð er áhersla á í sáttmála ríkisstjórnar. Þá er húsaleigufrumvarp um skráningarskyldu á þeim markaði væntanlegt á næstunni hér til þingsins.

Virðulegi forseti. Almenna íbúðakerfið hefur gefist vel og ríkir almenn sátt um það. Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa reyndar tekið mismikinn þátt í uppbyggingu þess kerfis og mikilvægt að tryggja aðkomu sem flestra og helst allra. Á landsbyggðinni hefur framgangur kerfisins verið ívið hægari og til að ráða bót á því hafa nú 31 sveitarfélag á landsbyggðinni tekið sig saman og stofnað húsnæðissjálfseignarstofnunina Brák, sem mun halda utan um uppbyggingu almenna íbúðakerfisins utan höfuðborgarsvæðisins.

Framtíðarsýn ríkisstjórnar í húsnæðismálum er skýr og í stjórnarsáttmála kemur fram til hvaða aðgerða ríkisstjórnin hyggst grípa til á kjörtímabilinu. Má þar nefna samþættingu málaflokkanna með því að sameina húsnæðismál, skipulagsmál, samgöngu- og sveitarstjórnarmál undir einu ráðuneyti, samþættingu áætlana í þessum málaflokkum, sérstakt átak í uppbyggingu leiguhúsnæðis innan almenna íbúðakerfisins fyrir fatlað fólk, eldra fólk og aðra þá sem búa við háan húsnæðiskostnað, að bæta húsnæðisöryggi og réttarstöðu leigjenda með traustri lagaumgjörð, samræmdri umsóknargátt um húsnæðisstuðning og aðgengilegri upplýsingagjöf og vinna áfram með hlutdeildarlán sem stuðning við fyrstu kaupendur. Stuðla á að nægilegu framboði byggingarlóða til lengri tíma, tryggja greinargóðar rauntímaupplýsingar um húsnæðismarkaðinn og stuðla að vistvænni mannvirkjagerð og samdrætti í losun frá byggingariðnaði. Þetta er margslungið verkefni, það er rétt hjá hv. þingmanni, og tekur sinn tíma. Og að lokum á að endurskoða regluverk og innleiða í auknum mæli stafræna stjórnsýslu í skipulags- og byggingarmálum í því skyni að lækka byggingarkostnað án þess að það sé gert á kostnað gæða eða algildrar hönnunar. Það eru mikil tækifæri fólgin í að einfalda regluverkið í skipulags- og byggingarmálum.

Það er rétt sem hérna hefur komið fram, að á árinu 2016 var almenna íbúðakerfið sett á fót. Þar hefur verið úthlutað 18 milljörðum og reyndar hafa verið þar tæplega 3.000 íbúðir. Leigufélagið Bríet tók til starfa 2019 og er óhagnaðardrifið húsnæðisfélag að norrænni fyrirmynd. Bríet á nú og rekur 210 íbúðir í 38 sveitarfélögum. Í lok árs 2020 var byrjað að veita hlutdeildarlán sem við þekkjum að eru fyrir tekjulága fyrstu kaupendur. Þar hafa verið um tæplega 600 umsóknir samþykktar og rúmlega 300 lán afgreidd, þannig að ýmislegt hefur verið gert. En það þarf að gera meira, ég er sammála hv. þingmanni um það.