152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

framtíð félagslegs húsnæðis.

[14:46]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Enn og aftur ræðum við hér stöðuna á húsnæðismarkaðnum og það er af ástæðu. Einhverra hluta vegna virðist okkur á Íslandi aldrei hafa tekist að halda einhverju jafnvægi á fasteignamarkaðnum. Þess vegna þekkjum við vel fyrirsagnir eins og „Aukin þensla á fasteignamarkaði á næstunni“, „Mikill hiti á fasteignamarkaði“ og „Þensla á húsnæðismarkaði var fyrirséð“. Allt eru þetta þó fyrirsagnir frá árunum 2004, 20555 og 2008 en gætu jafnframt verið frá deginum í dag. Hæstv. ráðherra kom inn á það að loksins líti út fyrir að við fáum rauntímaupplýsingar um stöðuna á fasteignamarkaðnum. Þetta er auðvitað algjört lykilatriði, eitthvað sem kallað hefur verið eftir í yfir áratug. Ég hygg að hæstv. ráðherra, nú sem innviðaráðherra, sé einmitt einn af lyklunum að því að við reynum að koma í veg fyrir stöðuga sveiflu á þessum markaði. Hér ætlum við að ræða sérstaklega félagslegt húsnæði sem skiptir jú vissulega máli. Það virðist samt vera svo í gegnum tíðina að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til af hálfu stjórnvalda til að koma til móts við þá sem verst eru settir hafa oft og tíðum haft þau áhrif að þær valda enn frekari sveiflu eða þenslu á húsnæðismarkaði og bitna þá auðvitað langmest á þeim sem höllustum fæti standa. Lykilatriðið hér hlýtur því að vera aukið og stöðugt framboð lóða og fjölbreytt húsnæðis. Það er eina leiðin til að við náum raunverulegum árangri til lengri tíma í þessum efnum.

Þá vil ég líka nýta tækifærið til að brýna hæstv. ráðherra því að í skýrslu frá OECD frá árinu 2020 voru gerðar 316 úrbótatillögur á regluverki í byggingariðnaði. Að hve miklu leyti hefur þessum tillögum verið fylgt eftir?