152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

framtíð félagslegs húsnæðis.

[14:53]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Í kjarasamningunum á almenna vinnumarkaðnum á árinu 2015 var samið um að ríkið myndi leggja til stofnframlög fyrir 2.300 íbúðum á næstu fjórum árum. Sú fyrirætlan náðist ekki, m.a. vegna þess að ekki virtist vera mikill áhugi á rekstri óhagnaðardrifins leigufélags. Niðurstaðan varð að lokum sú að heildarsamtökin á vinnumarkaði, ASÍ og BSRB, stofnuðu leigufélagið Bjarg íbúðafélag, sem hafði þann tilgang að byggja og leigja íbúðir fyrir tekjulægri félagsmenn. Með því að leggja til svokölluð stofnframlög tekst að bjóða leigu sem er talsvert undir markaðsleigu. Það eru fleiri óhagnaðardrifin leigufélög en Bjarg sem eru að sinna þessum málaflokki, svo sem Byggingafélag námsmanna og félag eins og Brynja – hússjóður, sem byggir leiguíbúðir fyrir öryrkja.

Frá því að Bjarg var stofnað hafa 552 íbúðir verið afhentar leigutökum, 348 íbúðir eru í hönnunarferli og/eða byggingu og 235 eru í undirbúningi. Það hefur komið í ljós að þörfin fyrir félag eins og Bjarg var svo sannarlega til staðar. Því má halda fram að þessi starfsemi sé hluti af hinu félagslega húsnæðiskerfi. Þá má einnig telja svokölluð hlutdeildarlán til félagslega húsnæðiskerfisins, en þau hafa hjálpað mörgum ungum kaupandanum til að eignast sína fyrstu íbúð. Staðan er hins vegar sú að þau þarf að hækka þar sem íbúðaverð hefur hækkað gífurlega og lánaviðmið hafa ekki náð að fylgja eftir þeim verðhækkunum.

Virðulegur forseti. Það er hægt að styrkja öll þessi kerfi og það myndi auka framboð á húsnæðismarkaði og styðja við og styrkja ungt fólk enn frekar til að komast í öruggt húsaskjól.