152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

framtíð félagslegs húsnæðis.

[14:55]
Horfa

Frsm. (Bergþór Ólason) (M):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir það sem hv. þingmaður sagði í ræðunni á undan er varðar mikilvægi og nauðsyn þess að hér sé til staðar leigufélag sem hefur það að sérstöku markmiði að ná leiguverði niður samanborið við hinn almenna markað. Það eru auðvitað ívilnandi þættir sem tryggja að leigufélagið geti það. En það sem skiptir mestu máli, að ég held, fyrir okkur til lengri tíma litið er að finna leiðir til að lækka kostnað við húsnæði heilt yfir. Á meðan skortur á lóðum er jafn mikill og hann er og hefur verið þá er ekki líklegt að jafnvægi myndist hvað verð varðar. Ég hef ekki áhyggjur af tímabundinni leiðréttingu, sé til komið yfirskot hvað verð fasteigna varðar þá mun það jafna sig yfir lengri tíma.

Við þurfum að komast á þann stað að hægt sé að byggja þannig á svæðum sem bjóða upp á hagkvæma uppbyggingu, ekki bara á þéttingarreitum þar sem hver fermetri er rándýr. Við þurfum að komast á þann stað að félög eins og hér hafa verið nefnd, óhagnaðardrifin og þau sem eru formuð af stéttarfélögum og fleiri sem hafa það að markmiði að bjóða upp á eins lága leigu og kostur er, komist áfram með sín verkefni. En við megum ekki gleyma þeim stóra hópi sem er og verður á hinum almenna íbúðamarkaði. Sá markaður er allur í rúst í augnablikinu. Það vantar gríðarlega mikið af lóðum inn á þann markað. Á meðan það framboð er ekki til staðar leysist ekki vandamálið. Það er bara þannig. Ég held að það væri umræðunni til bóta ef það atriði væri fremst í röðinni hvað þau vandamál varðar sem nauðsynlegt er að tækla um leið og við leitum leiða til að lækka (Forseti hringir.) byggingarkostnað með einföldun regluverks og opnun á hagkvæmari íbúðir án þess að gefið sé um of eftir hvað gæði varðar.