152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks 2022--2025.

415. mál
[15:27]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu og um leið fagna ég því að það er verið að ráðast í úrbætur í þessum mikilvæga málaflokki. Hins vegar verð ég að segja að þegar litið er á heildarmyndina gengur þessi aðgerðaáætlun ekki nógu langt. Trans fólk er t.d. í meiri sjálfsvígshættu en margir aðrir hópar innan samfélagsins vegna langs biðtíma eftir kynleiðréttingaraðgerð. Það þarf að leggja meira fjármagn í þann málaflokk og um leið efla Landspítalann þannig að hægt sé að taka mið af þörfum þessara hópa. Eins tek ég undir með hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni að ekki sé tekið mið af hinsegin flóttafólki og hælisleitendum sem eru einna viðkvæmustu hóparnir í íslensku samfélagi en það þarf að halda utan um þá sérstaklega og koma í veg fyrir t.d. hatursglæpi gagnvart þeim með lausnamiðaðri löggjöf sem tekur beint á hatursglæpum og hatursorðræðu, sem hæstv. ráðherra kom inn á áðan. En mikilvægt þykir mér einnig að efla stjórnvöld, til að mynda lögregluna, með fræðslu og kerfisbreytingum og ég fagna því í aðgerðaáætluninni. En það er ekki farið nógu ítarlega út í hvernig þessi efling mun eiga sér stað. Það þarf að taka á svona málefnum með mannúð og þekkingu að leiðarljósi og það virðist eitthvað vera að klikka þegar kemur að áðurnefndri hatursorðræðulöggjöf, hvort það séu lögin sjálf sem ná ekki utan um glæpina eða hvort stjórnvöld telji þetta ekki vera nógu mikilvæg og alvarleg mál veit ég ekki, en það er samspil milli laga og aðgerða stjórnvalda sem gæti leitt til úrbóta í þessum málaflokki. Allt þetta og meira kemur fram í umsögnum við þessa aðgerðaáætlun og þykir mér miður að ekki hafi verið tekið frekar mið af þeim en betur má ef duga skal. Því vil ég hvetja hæstv. forsætisráðherra áfram á þessari braut og jafnframt kalla eftir því að málið taki þeim breytingum í meðförum þingsins sem umræddir hópar hafa kallað svo lengi eftir.