152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks 2022--2025.

415. mál
[15:34]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar að þakka fyrir að þetta mál sé komið hér fram. Það er aðallega tvennt sem mig langar að fjalla um hér í ræðustól í dag varðandi það. Í fyrsta lagi hef ég sjálf tekið virkan þátt í baráttu hinsegin fólks í tæp 30 ár. Staðan sem við erum í í dag, miðað við þegar ég kom fyrst á vettvang, er auðvitað gjörbreytt. Við höfum unnið í rétta átt í áratugi að því að tryggja réttindi og vernd hinsegin fólks á Íslandi og því ber að sjálfsögðu að fagna. En það sem mig langar að ávarpa er kannski að við munum söguna og eigum ekki á hættu að sagan endurtaki sig þar sem hún hefur verið hinsegin fólki hættuleg og erfið. Vil ég í því samhengi minna á að á millistríðsárunum í Evrópu, í Berlín, var blómatími hinsegin fólks. Á einni nóttu var lögum breytt og við urðum réttdræp og vorum send í fangabúðir og höfðum ekkert til þess að verja okkur. Réttindi þau koma, en þau fara líka ef ekki er staðinn vörður um þau réttindi sem nást.

Mig langaði að minna á þetta í dag þegar við stöndum frammi fyrir gríðarlegri ógn, stríðsrekstri, í álfunni. Við vitum ekki hvernig fer, hvað stríðið verður lengi, hve margir verða fyrir áhrifum. En það fyrsta sem gerist þegar kemur við pyngjuna, þegar fer að þrengja um rýmið okkar, er að jaðarsettu hóparnir falla fyrstir fyrir borð. Þess vegna verð ég að koma upp og árétta það og minna á það að þó að við stöndum ágætlega á Íslandi þá megum við aldrei sofna á verðinum.

Hitt sem mig langaði til að ræða er það að á þessum áratugum sem unnið hefur verið ötult starf, af Samtökunum '78 og einstaklingum í samfélagslegri sátt, þá hefur sú barátta að mínu mati fyrst og fremst náð árangri af því að hún hefur verið unnin þverpólitískt. Það að góð mál sem stuðla að auknu réttlæti, sem stuðla að sterkari stöðu hinsegin fólks í samfélaginu, komi á dagskrá — við eigum öll að fagna því hvar sem við sitjum í flokki. Það finnst mér gríðarlega mikilvægt. Lög um hjúskap hinsegin fólks, mál varðandi tæknifrjóvganir, varðandi hvað sem er — ef við hefðum staðið hér í þessum sal og reynt að vinna hér einhverja pólitíska sigra á eigin forsendum hefðum við aldrei komist neitt áfram í þessari réttindabaráttu.

Ég biðla því til þingheims. Ég biðla til samfélagsins á þeim tímum sem við lifum núna: Hjálpumst að við að tryggja réttindi. Má gera betur? Það má alltaf gera betur. Munu koma upp nýjar áskoranir? Já, þá þurfum við að takast á við þær. En hjálpumst að við að tryggja rétt hinsegin fólks í landinu, förum hærra á kortinu og stöndum vörð. Þetta litla land, þessi litla þjóð, hefur í hinsegin málefnum verið til fyrirmyndar út á við. Við getum verið í fararbroddi ef við stöndum saman og fylgjum þessum málum áfram.