152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

áfengislög.

334. mál
[19:03]
Horfa

Flm. (Hildur Sverrisdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, hv. þingmaður getur ekki meir, en ég get meir þannig að ég skal taka við keflinu og gera það sem ég get til að til þess að koma því áfram. Við erum sammála um að það er mikilvægt að koma málinu inn í þingsal. Hv. þingmaður fer mikinn í fullyrðingum um að þetta mál muni aldrei komast hingað og það séu samstarfsflokkar okkar í ríkisstjórn sem standi í vegi fyrir því. (ÞKG: Það er 20 ára reynsla bara af því …)Þetta þingmannamál er lagt fram af mér og fleirum og ég ætla að halda mig við það að vera full bjartsýni á þetta verklag. Mér finnst allt í lagi þó að flokkar sem eru saman í ríkisstjórn séu ekki sammála og held að það sé í lagi að mál fari inn í þingsal þótt ekki sé einhugur um málið í því stjórnarsamstarfi eða þótt stjórnarsáttmálinn nái ekki yfir málið. Ég held að það yrði mjög einhæf þingdagskrá. En ég skil punktinn. Ég skil pólitíkina í punktinum og ætla ekkert að gera lítið úr pólitík hv. þingmanns. En ég ætla að leyfa mér að vera ósammála. Þetta mál rataði vissulega ekki í stjórnarsáttmála, það er hárrétt, og hefur ekki ratað í einn einasta stjórnarsáttmála ef ég man rétt, en það breytir því ekki að ég held að það verði spennandi að sjá hvaða þingmenn munu styðja þetta mál þegar til kastanna kemur.