152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

um fundarstjórn.

[15:06]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum enn og aftur þetta ríkisborgaramál og ég ætla kannski að segja fyrir mitt leyti að þá hef ég áhuga á að ræða meira um framtíðina. Það er alveg ljóst og þetta lögfræðiálit sannar það að að sjálfsögðu getur þingið kallað eftir þeim gögnum. Ég held reyndar að hvorki stofnunin né ráðherra hafi ætlað að reyna að komast undan þeirri skyldu, þetta snerist um tímann. Það er alveg rétt að samkvæmt þingsköpum er talað um að veita eigi slík gögn innan sjö daga. Það er eitt af því sem við þurfum kannski að fara yfir ef við viljum velta svona hlutum fyrir okkur, hvort það séu eðlileg tímamörk í yfirferð á 170 umsóknum. En stóra málið held ég að hljóti að vera það hvernig við viljum hafa þetta verklag til framtíðar því við erum auðvitað komin í þá stöðu að þetta gengur ekki, það sem við erum búin að upplifa, og við erum flest sammála um það, þannig að við þurfum að fá nýjar leiðir. Það hefur verið nefnt hérna að taka bara upp gömlu leiðina, umsóknirnar komi bara beint til þingsins. En við skulum reyndar líka hafa það í huga að í flestum löndum sem við berum okkur saman við er þessi málaflokkur hjá stofnun eins og Útlendingastofnun þar sem þetta er afgreitt í samræmi við lög. Þetta er auðvitað svolítið sérstök staða hér (Forseti hringir.) að hafa þetta verklag og hefð. Með því er ég ekki að segja að ég sé því mótfallin, en ég held að það sé mjög mikilvægt að við komum okkur saman (Forseti hringir.) um framtíðarverklag og hvernig við ætlum að framkvæma það að veita ríkisborgararétt samkvæmt lögum hér á þingi.