152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

störf þingsins.

[15:39]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Á sama tíma og hæstv. dómsmálaráðherra tekur á móti úkraínsku flóttafólki laumar hann í samráðsgáttina frumvarpi um að efla svokallaðar forvirkar rannsóknarheimildir lögreglunnar. Lögreglan á að fá auknar heimildir til að njósna um fólk og nálgast gögnin þeirra ef lögreglan telur mögulegt að þetta fólk geti hugsanlega orðið glæpamenn í framtíðinni. Ráðherrann rökstyður þessar breytingar sínar með vísan til þess hvernig málum er háttað í Noregi og Danmörku. Mér hefði þótt við hæfi að hann myndi líka leggja til að auka eftirlit með störfum lögreglunnar í samræmi við það sem tíðkast í Noregi og Danmörku. Ef lögreglan vill sinna öflugra eftirliti þarf hún sjálf að mæta öflugra eftirliti. Á Íslandi erum við með nefnd sem fær ekki einu sinni upplýsingar um eftirlit lögreglu með almennum borgurum nema lögreglan upplýsi um það sjálf. Þegar nefndin kallar eftir gögnum frá lögreglu er hún treg til að afhenda þau, eins og formaður nefndarinnar lýsti í fjölmiðlum í fyrra.

Ég er sannfærð um að aukið eftirlit með lögreglu yrði henni til hagsbóta, t.d. myndi aukið aðgengi fjölmiðla að upptökum úr búkmyndavélum lögreglu taka af allan vafa um starf hennar, sem er einmitt einn megintilgangur myndavélanna að sögn yfirlögregluþjóns. Núverandi aðstoðarmaður dómsmálaráðherra hefur jafnframt sagt að myndavélarnar séu gríðarleg réttarbót fyrir lögreglumenn því að með upptökunum losni þeir undan tilhæfulausum ásökunum um misbeitingu valds. Ef lögreglumenn hafa ekkert að fela þá þurfa þeir ekkert að óttast aukið eftirlit, er það nokkuð? Í staðinn fyrir að efla forvirkar rannsóknarheimildir til að stöðva glæpi, væri ekki eðlilegra að byggja hér upp félagslegt stuðningsnet og kerfi sem kemur í veg fyrir að fólk leiðist út í glæpi til að byrja með? Það er alvöru forvirk aðgerð sem virkar. Við ættum bara að byrja þar.