152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

staða, horfur og þróun í fjarheilbrigðisþjónustu.

[16:11]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Ég held að við getum öll verið sammála um að fá byggðamál eru eins mikilvæg og aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Fólk á ekki að þurfa að setja líf sitt og heilsu barna sinna í óvissu við það eitt að kjósa að búa utan þéttbýlissvæða, utan höfuðborgarsvæðisins jafnvel. Þess vegna er þessi umræða brýn og ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir að hefja hana í þetta skipti. Við höfum rætt þessa hluti hér áður og það er ánægjulegt að heyra á hæstv. ráðherra að hann tekur málið alvarlega.

Það er alveg ljóst að í fámennu landi er ekki hægt að byggja upp sömu sérþekkingu og aðstöðu á hverju byggðu bóli. Við höfum Landspítalann og Sjúkrahúsið á Akureyri sem hafa sérstökum skyldum að gegna en fólk utan þessara byggðakjarna þarf að sitja við sama borð. Við þurfum á fjarheilbrigðisþjónustu að halda ef við ætlum að byggja upp landið allt. Við í Viðreisn höfum þess vegna lagt áherslu á að skilgreind verði betur réttindi almennings varðandi aðgengi að heilbrigðiskerfinu sem taki mið af fjarlægð frá þjónustu. Það er mikilvægt atriði inn í þessa vinnu. Svo er það hitt að við höfum mikið svigrúm til að bæta þjónustuna. Ég saknaði þess að í heilbrigðisstefnu ríkisstjórnarinnar til ársins 2030 væru sett skýr markmið um hvernig staðið verði að málum. Ég hef ákveðnar skoðanir á því að þar hafi komið inn fordómar ríkisstjórnarinnar gagnvart nýsköpun, einkaframtaki og aðilum utan hinna hefðbundnu opinberu stofnana í heilbrigðiskerfinu sem voru gegnumgangandi allt síðasta kjörtímabil. Ég bind vonir við að nýr ráðherra breyti því, sérstaklega þar sem hann talar um og viðurkennir að það séu veggir á milli opinberu þjónustunnar og nýsköpunar eins og hann talaði um í upphafsræðu sinni. Við þurfum á því að halda að nýta okkur hugmyndir, hugsjónir, þekkingu þess fólks sem getur fleytt okkur áfram. Samstarf hins opinbera og einkaaðila er alltaf mikilvægt. Ég er þess fullviss að við náum ekki markmiðum okkar í þessum mikilvæga hluta heilbrigðisþjónustunnar nema að tryggja að svo verði.