152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

staða, horfur og þróun í fjarheilbrigðisþjónustu.

[16:22]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um fjarheilbrigðisþjónustu. Því flottasta sem ég hef séð í fjarheilbrigðisþjónustu kynntist ég á Grænlandi. Eins maður segir, neyðin kennir naktri konu að spinna og Grænlendingar urðu að leysa málið því að það voru hvorki vegir né flug á marga staði þar og við vitum hvernig aðstæður geta verið á Grænlandi. Þeir útbjuggu neyðarvagna sem þeir nota sem er algjör snilld og ef við ætlum að læra eitthvað þá ættum við að læra af þeim. Þeir eru búnir leysa flest þau vandamál sem komu upp. En fjarheilbrigðisþjónusta á auðvitað bara að vera neyðarúrræði. Við erum í sjálfu sér með fjarheilbrigðisþjónustu í dag, ég nota hana tiltölulega mikið, og hún heitir Heilsuvera. Hún hefur sparað mér marga klukkutíma, örugglega tugi, í síma við að panta lyf eða bara af því að mig vantar vottorð. Eins og staðan er núna getur það tekið tvo mánuði að fá tíma hjá heimilislækni og ef síðan þarf að panta tíma hjá sérfræðilækni þarf að bíða enn lengur. Það segir okkur að það er eitthvað að kerfinu okkar og við þurfum að koma því í lag. Það er líka stór hópur fólks sem á þegar erfitt með að nota þá þjónustu sem er til staðar í dag og hvað þá að nota t.d. Heilsuveru vegna þess að viðkomandi á ekki tölvu né hefur aðgang að annarri nauðsynlegri tækni sem þarf til að fara inn á Heilsuveru með því leyninúmeri sem þarf til að komast þar inn. Við eigum að sjá til þess að allir geti nýtt þá þjónustu sem þeir þurfa í nærumhverfi sínu og sjá til þess að bæta heilsugæslu og nærsjúkrahús fyrir fólk úti á landi þannig að það fái þá þjónustu sem það þarf á að halda í nærumhverfi sínu.