152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[17:16]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér er ekki kunnugt um að búið sé að innleiða rafrænar kjörskrár í sveitarfélögum. Það kann vel að vera að svo sé. En eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson sagði var það í raun gert valkvætt að innleiða hana. Við vitum að sveitarfélögin eru mörg og þau hafa mismikla burði til að innleiða rafræna kjörskrá og að sjálfsögðu þarf undirbúningstíma að því eins og öðru. Skilji ég stöðuna rétt þá er það m.a. vegna þess að það er ekki alls staðar verið að innleiða rafræna kjörskrá, eða stendur til að gera það, að þessar viðmiðunardagsetningar breytast, annars væri þetta ekki svona umhendis. En mér finnst hins vegar aðalmálið vera það að þetta er heildarendurskoðun og miklar breytingar voru gerðar á frumvarpinu eins og ég skil það — nú var ég ekki hér á síðasta þingi — í meðförum þingsins. Gott og vel, en það gerir að verkum að það þarf meiri tíma til þess að vinna úr lagabreytingunum og innleiða þær í dómsmálaráðuneytinu, og í þessu tilviki í sveitarfélögunum sem framkvæma kosningarnar, en komið hafi á daginn að sá tími sem ætlaður var var allt of skammur og þess vegna höfum við verið í þessum reddingum hér í vetur. Nú erum við býsna tímabjartsýn þjóð og höldum alltaf að allt taki minni tíma en það tekur. En hvað þetta varðar, þetta eru kosningalögin okkar, held ég að við þurfum að horfast í augu við það að hér þarf að vanda sérstaklega vel til verka. Mistök í lagasetningu geta nefnilega leitt af sér mjög alvarlegar afleiðingar, svo ég tali nú ekki um mistök við framkvæmd kosninga sem geta líka verið alvarleg.