152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[18:50]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir andsvarið. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni í því að lýðræðið er einn af hornsteinum samfélagsins. Það er nákvæmlega þess vegna sem lög um kosningar þurfa að vera mjög vel unnin, betur unnin en jafnvel mörg önnur lög sem við setjum hér á hinu háa Alþingi. Við munum gera mistök í lagasetningu. Við munum vonandi læra af þeim. Það hefur oft verið sagt að það sé mannlegt að gera mistök. Það er allt í lagi svo lengi sem við lærum af þeim og það er það sem ég er að hvetja til. Það gekk ekki allt upp í síðustu kosningunum. Drögum lærdóminn af því, lögum það sem laga þarf. Við þurfum að hafa þennan hornstein að lýðræðinu algerlega traustan. Ef við gerum það ekki þá vitum við hvar við endum. Við endum í því glapræði sem margar þjóðir hafa því miður þurft að horfa upp á þar sem lýðræðið er bara í orði en ekki á borði.