152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

samkomulag við Rauða krossinn um þjónustu við flóttamenn.

[11:18]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Fyrst af öllu geri ég athugasemdir við það sem kemur hér fram hjá hv. þingmanni, að þessi ákvörðun, um að breyta um þjónustuaðila við skipun talsmanns þeirra sem hér leita hælis, hafi verið tekin á ógagnsæjan hátt og af óvirðingu við flóttamenn og Rauða kross Íslands. En þetta er svo sem í takt við annan málflutning fólks í þessum málefnum þar sem reynt er að fara fram með gífuryrðum og fullyrðingum sem standast enga skoðun og eru ekki rökstuddar.

Hér er spurt hvort þau mælanlegu viðmið sem Útlendingastofnun hefur birt og verða lögð til grundvallar, til að meta störf þeirra sem taka að sér þessa talsmannaþjónustu í framtíðinni samkvæmt samningi við stofnunina, hafi verið samin með minni vitund og mínu samþykki og hvort ég telji þau fullnægjandi. Ég hafði ekki séð þessi viðmið neitt sérstaklega áður en þau voru birt frekar en þessa auglýsingu sem birtist til að auglýsa eftir lögmönnum, lögfræðingum, til að sinna þeirri lögbundnu þjónustu okkar við þá sem leita hingað til að biðja um vernd. Ég geri ráð fyrir því að það sé mikil fagleg þekking til innan stofnunarinnar á þessari málsmeðferð og ég geri ráð fyrir því að þarna séu talin upp þau atriði sem stofnanir telja að þurfi að vera til grundvallar til þess að þjónustan gangi sem best fyrir sig, sé sem skilvirkust. Það er eðlilegt að stofnunin birti eitthvert slíkt mat þannig að þeir sem taka að sér þessi störf í framtíðinni viti að hverju þeir ganga.