152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

stjórnsýsluendurskoðun á samningi íslenska ríkisins við Microsoft.

436. mál
[12:01]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Á afmælisdaginn minn 2018 var skrifað undir heildarsamning um hugbúnað við Microsoft sem var réttlættur með 200 milljóna árlegum sparnaði. Í vinnu minni í fjárlaganefnd hefur berlega komið í ljós að þann sparnað er hvergi að finna. Á móti hafa komið sjónarmið um að ýmiss konar annar hugbúnaður hafi nýst ágætlega, Teams og fleira, sérstaklega í faraldrinum og því um líkt, þannig að það gæti vel hafa verið jákvætt að skrifa undir þennan samning. Hvað sparnaðinn varðar, líklega ekki. Mér finnst alla vega eðlilegt, og þeim þingmönnum sem hér skrifa undir beiðni um skýrslu, að spyrja þá gagngert: Hver er hagnaðurinn og ábatinn af því að hafa skrifað undir svona samning og læsa ríkið inni í samstarfi við eitt fyrirtæki? Það er ágætlega mikil ábyrgð sem því fylgir og ekkert endilega sparnaður (Forseti hringir.) eða ábati af því. Þetta svið er á stöðugri ferð (Forseti hringir.) og það þarf að grípa hratt í taumana ef það er einhver þróun (Forseti hringir.) sem kemur upp á nýjum vettvangi. Þannig að ég bið um skýrslu til að sjá hvernig þessu máli vindur fram.