152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[12:23]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Ég mun fara yfir hana sjálf í ræðu á eftir og yfir skoðun mína á þeirri framsetningu sem er af hálfu ráðuneytisins og ráðherra og því sem gert hefur verið — margt fínt, en ýmsir hlutir sem ég sakna. Ég kem hér upp í fyrirspurn til að forvitnast aðeins varðandi Brexit af því að nú var forveri ráðherra í starfi mjög digurmæltur í því að tala um þau tækifæri sem fælust í Brexit fyrir okkur Íslendinga. Þegar við sáum svo samninginn um daginn virtist þó lítið fara fyrir þessum tækifærum og það er alveg ljóst að staða okkar gagnvart Bretum er ekki betri, hún er frekar verri ef eitthvað er, eftir Brexit.

Mig langar í fyrsta lagi að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún viti hverju Bretarnir höfnuðu. Hverjar voru okkar kröfur í samningaviðræðunum, um fríverslunarsamninginn, þegar kom að þeim samskiptum öllum? Var t.d. lögð fram tillaga okkar og ósk um að frjáls för myndi ríkja á milli landanna þrátt fyrir Brexit? Það er kannski fyrsta spurningin, varðandi þessa frjálsu för; hverju höfnuðu Bretar beinlínis í kröfum okkar? Hverjar voru kröfur okkar og hvaða kröfum okkar var hafnað í þessum samningaviðræðum? Ég kem síðan að annarri spurningu í mínu seinna andsvari.