152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[14:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að koma strax í upphafi fram þökkum til utanríkisþjónustunnar sem að mínu mati hefur staðið sig vel, allt starfsfólk þjónustunnar og okkar tengiliðir víða um heim við að sinna ekki síst mismunandi þörfum, bæði borgaranna okkar sem eru víða og þeirri þjónustu sem við þurfum að halda uppi gagnvart þeim en líka gagnvart fyrirtækjum og ekki síður því að fylgja eftir okkar stefnu og það er það sem mig langar að draga fram. Þetta er fínt plagg, það er aðgengilegt og ég vil hrósa ráðherra, ekki bara fyrir skýrsluna heldur fyrir það hvernig ráðherra hefur komið fram af mikilli einurð á síðustu dögum. Það er ekki sjálfgefið að það sé talað með jafn skýrum hætti í þágu samstöðu, í þágu friðar og í þágu ábyrgrar stefnu með því að standa með öðrum þjóðum sem eru að berjast fyrir tilvist sinni eins og Úkraína er að gera. En ég verð að segja eftir að hafa rennt yfir þessa skýrslu í gærkvöldi að þetta er góð samantekt á því sem er búið að gera. Þetta er aðgengilegt fyrir okkur þingmenn og ég hvet landsmenn líka alla til þess að fletta upp í þessu, það er margt áhugavert að gerast en ég greini samt ekki undirstöðurnar í okkar utanríkisstefnu og sýnina og markmiðin og að hverju við erum að vinna. Kannski er ekki sanngjarnt, og ég dreg það fram hér að það er eflaust búið að prenta meira og minna þessa skýrslu þó að hún sé prentuð núna í mars, að tekið sé tillit til stríðsins í Úkraínu.

Það er rétt sem kom fram áðan í ræðu hv. þm. Jóhanns Friðriks Friðrikssonar að við höfum allt of lítið rætt um utanríkismál. Við höfum allt of lítið rætt um stefnuna, okkar kalda hagsmunamat, hvort stöðu Íslands sé betur borgið innan eða utan Evrópusambandsins. Það er bara ein setning í stjórnarsáttmálanum. Þannig er þetta bara afgreitt, ekkert mat. Það er ekkert mat lagt fram fyrir utanríkismálanefnd, ekkert samtal við þjóðina um að þetta mat liggi til grundvallar og þetta er eina harða pólitíska stefnan sem maður getur fundið í stjórnarsáttmálanum.

Við í Viðreisn höfum haldið uppi miklum málflutningi, bæði um mikilvægi Evrópusambandsins en líka um varnar- og öryggismál. Ég man það að um daginn þegar ég var að reyna að kreista fram svör frá til að mynda hæstv. innviðaráðherra um hvort það hefði ekki örugglega verið tékkað í öll box þjóðaröryggis þegar Míla og salan á Mílu var til umræðu þá kom ég að tómum kofanum. En auðvitað er þetta líka afleiðing þess að við, vestrænar þjóðir og ekki síst Evrópuþjóðirnar, höfum verið að vissu leyti sinnulaus síðustu 30 árin af því að við höfum verið á tímum friðar allt frá því að Berlínarmúrinn hrundi 9. nóvember 1989. Þá hefur sem betur fer samstaðan og samvinnan þvert yfir Evrópu dýpkað og aukist og leitt af sér þetta mesta friðartímabil sem við höfum upplifað. Þau gildi hafa styrkst og nærst sem við Íslendingar viljum standa vörð um og það eru lýðræði, frelsi og mannréttindi.

Skýrslan er fín samantekt en hún er ekkert mikið meira. Enginn metnaður, engin dirfska. Það er hvergi verið að segja: Heyrðu, hér er verið að vinna að því að undirbúa t.d. þjóðina undir að taka hugsanlega afstöðu til Evrópusambandsaðildar. Það er hvergi minnst á það. Það er hvergi talað um upplýsingar til þjóðarinnar um það. Eða til að mynda þegar ég horfi hér á vin minn og félaga, hv. þm. Njál Trausta, tala um mikilvægi NATO, þá hefur ekkert verið endilega mjög töff eða smart að ræða um varnar- og öryggismál en það er kominn tími til. En við höfum ekki fengið þetta frumkvæði frá ríkisstjórninni. Ég vil benda á að það upplýstist m.a. á fundi utanríkismálanefndar að þjóðaröryggisstefnan, sem er það skjól sem forsætisráðherra hefur af því að það má ekki nefna NATO, það má ekki nefna varnarsamninginn, það má ekki nefna þessi hræðilegu orð heldur er bara talað um þjóðaröryggisstefnuna — gott og vel, ef við ætlum að fara í hana þá átti að vera búið að endurskoða hana á síðasta ári miðað við þá stefnu sem er í gildi og tók gildi 2016 en við erum ekki einu sinni byrjuð að sjá framan í drög að þjóðaröryggisstefnu.

Ég vil draga fram nokkur atriði. Það er auðvitað mikilvægt að styrkja pólitíska og efnahagslega stöðu Íslands í Evrópu. Við þurfum að auka áhrif okkar með því að fá sæti við borðið í Evrópusambandinu og styrkja enn frekar þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu, NATO. Það er líklegt að varnar- og öryggismál muni hljóta aukið vægi í Evrópusamvinnunni, m.a. vegna innrásar Rússa í Úkraínu en líka vegna áherslu Bandaríkjanna á önnur svæði eins og Asíu og þau eru að einblína meira á aukin umsvif Kína, til að mynda í Suður-Kínahafi. Danir hafa þvert á flokka sett fram stefnubreytingu í dönskum öryggismálum, annars vegar með stórauknum útgjöldum til varnarmála og hins vegar með því að falla frá fyrirvara þeirra gagnvart ESB um varnarmál samþykki danska þjóðin það í þjóðaratkvæðagreiðslu sem verður núna í byrjun sumars en allir flokkar hafa samþykkt að setja þetta fram þannig. Þjóðverjar eins og við þekkjum hafa einnig gjörbreytt áherslum sínum og framlagi til varnarmála í álfunni. Finnar og Svíar eru líka að hugsa sér til hreyfings og þar hafa systurflokkar Vinstri grænna kúvent í afstöðu sinni af því þeir eru með öryggi hagsmuna í húfi. Hér má ekki ræða þetta, það má ekki einu sinni meta það hvort það eigi að styrkja þátttöku okkar innan NATO. Það má ekki einu sinni meta það hvort það sé rétt að auka viðvarandi veru varnarliðs á Íslandi, því er bara hent út af borðinu af því að það hentar ekki forystuflokknum í ríkisstjórn og hans grasrót og kannski hugsanlega af því að sá flokkur er hræddur við að meira fylgi fari yfir til Sósíalistaflokksins, að það leki þangað yfir.

Þetta leiðir til þess að ríkisstjórninni verður fyrir vikið stefnulaus í öryggis- og varnarmálum hvað þetta varðar ef ekki má ræða NATO, ef ekki má ræða aukna þátttöku okkar á þeim vettvangi eða ræða það hvort við eigum að koma hér upp herafla í samvinnu við okkar bandalagsþjóðir með einhverjum hætti. Það er atriði sem við munum m.a. fjalla um síðar þegar við fjöllum um tillögu okkar Viðreisnar um þessi mál. Við teljum að með lokaskrefi frá aðild að innri markaði Evrópusambandsins að fullri aðild má einnig auka aðgengi fyrir íslenskar vörur á Evrópumarkað, ekki síst sjávarafurðir, og tryggja heimilum og fyrirtækjum meiri stöðugleika og betri samkeppnishæfni.

Í þessari skýrslu liggur ekkert fyrir mat á því. Við teljum að aukið viðskiptafrelsi og aðgangur að mörkuðum styðji við efnahagslegt öryggi Íslands sem og almennt öryggi landsins. Heimsmyndin er nú gjörbreytt. Togstreita er milli Kína og Bandaríkjanna og ekki líkur á að hún minnki á næstu árum. Viðskiptaþvinganir eru líklegri til að verða algengari og þeim beitt í meira mæli en áður. Þá er mikilvægt að vera í öruggu skjóli meðal ríkja sem tryggja aðgang Íslands að stórum mörkuðum. Þannig tryggjum við einnig viðskiptafrelsi í ríkari og öruggari mæli, sem er einkum mikilvægt í því breytilega og óörugga umhverfi sem nú er uppi.

Við stöndum andspænis nýjum áskorunum, annars konar valdahlutföllum í heiminum og vaxandi þörf lýðræðisþjóða fyrir samvinnu, ekki einungis um hervarnir heldur einnig um grunngildi, menningu, viðskipti og efnahag. Viðbrögð okkar við stríðinu í Úkraínu eiga því ekki að einskorðast við daginn í dag. Við þurfum að horfa fram í tímann. Við þurfum að meta stöðu Íslands í nýju ljósi og tryggja framtíðarhagsmuni landsins á öllum sviðum.

Aðildin að innri markaði Evrópusambandsins fyrir tilstilli EES-samningsins og aðildin að Atlantshafsbandalaginu hafa verið tvær meginstoðir íslenskrar utanríkisstefnu. Þá er eðlilegt að nýjum aðstæðum verði mætt með því að styrkja þessa tvo kjarna utanríkisstefnunnar. Eftir síðari heimsstyrjöld gerðu lýðræðisþjóðirnar sér grein fyrir því að útilokað væri að tryggja frið og öryggi með hervörnum einum saman. Aukið viðskiptafrelsi, vaxandi hagsæld og sömu leikreglur fyrir alla hefðu jafn mikla þýðingu til að ná því markmiði um frið og öryggi í Evrópu.

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, bendir réttilega á það í grein í Fréttablaðinu í dag að Atlantshafsbandalagið, NATO, er hvergi nefnt berum orðum í ríkisstjórnarsáttmálanum. Í formála stjórnarsáttmálans er ekki minnst á öryggis-, utanríkis- og varnarmál. Það er heldur ekki gert í þeim hluta sáttmálans sem lýsir stefnu stjórnarinnar. Metnaðurinn hjá ríkisstjórninni varðandi þessi mál og að taka þau föstum tökum er ekki mikill og er í rauninni að verða hættulegur ef þau ætla ekki að hafa betur augun á boltanum.

Ég vil einblína á Evrópusamstarfið, þetta stærsta og árangursríkasta friðarverkefni sögunnar, virðulegur forseti. Það eru hagnýt rök ein og sér fyrir fullri aðild að ESB að friður hafi varað svona lengi í álfunni. Hér yrði meiri stöðugleiki og við fengum jafnframt aðgang að stærri markaði, hvort sem það er á sviðum viðskipta eða peningamála. Við fengjum aukinn stuðning til að bæta lífsgæði og lífskjör og hefðum loks eitthvað um málin að segja. Með auknum stöðugleika yrði létt undir með fjölskyldum og fyrirtækjum sem stöðugt þurfa að hafa áhyggjur af gengissveiflum og verðbólguskotum. Auðvitað yrðum við ekki laus við öll vandamál en vandamálin yrðu önnur og þau yrði miklu viðráðanlegri en nú, sama hvert er litið. Þess vegna er að mínu mati óábyrgt að stinga höfðinu í sandinn og útiloka þá kosti sem gætu bætt íslenskt samfélag, ekki síst nú þegar við sjáum aukinn stuðning almennings, þegar um helmingur þjóðarinnar er fylgjandi fullri aðild að Evrópusambandinu og fólk vill bara einfaldlega koma með þessa tillögu til ríkisstjórnarinnar. Hvað með að láta þetta í hendur þjóðarinnar? Leyfa henni að ráða svolítið um sína framtíð. Þetta kallar auðvitað á aukið samráð við þjóðina og að leyfa henni að hafa eitthvað um málið að segja, treysta henni til að segja ykkur hver næstu skref eiga að vera.

En rökin eru ekki bara hagnýt, virðulegi forseti, eins umfangsmikil og þau hagnýtu rök eru samt sem áður. Þetta snýst líka um mikilvægi þess að Ísland verði hluti af stærra samfélagi sem stendur vörð um frið og mannréttindi, samfélag þar sem frjálslyndið er í hávegum haft og lýðræðið fær að njóta sín, sem er ekki sjálfsagt í heiminum eins og við upplifum núna svo rækilega. Við Evrópusinnar hefur kannski ekki alltaf rætt þetta nógu mikið og finnst samt mörgum nóg um, við höfum frekar einblínt á hagtölur og hlutlæga hagsmuni, gríðarlega mikilvægt og gríðarlega þýðingarmikið til að fólk sjái líka samhengi hlutanna. Við höfum verið að ræða húsnæðismál. Það er ekki eðlilegt að vera alltaf með miklu hærri vexti hér heldur en annars staðar í Evrópusambandinu. En það er svo gríðarlega mikilvægt að ræða þessa fallegu hugmyndafræði sem er á bak við Evrópusambandið sjálft. Það er ekki hægt að andmæla því að Evrópusambandið er einfaldlega það bandalag sem beitir sér hvað harðast fyrir mannréttindum, friði og frjálslyndu lýðræði í heiminum og það er ekki sjálfgefið.

Þá er ótalið hversu nauðsynlegt sambandið er í umhverfis- og loftslagsmálum. Það rekur svolítið ríkisstjórnina íslensku áfram. Hún hangir í því með þeim markmiðum sem ESB hefur sett og í rauninni hefur Evrópusambandið tekið að sér forystuhlutverk fyrir okkur Íslendinga í loftslags- og umhverfismálum. Sama hvað um ræðir þá leiðir Evrópusambandið lestina í átt að bættum heimi. Ef við eigum erfitt með að samþykkja það getum við horft til allra þeirra umbótamála sem hafa borist hingað frá Evrópu og hefðu seint orðið að veruleika nema í gegnum samstarf okkar á sviði Evrópumála. Þess vegna eigum við að taka næsta skref og fara alla leið. Við eigum að taka fullan þátt í þessari vegferð Evrópusambandsins og hjálpa meira til í baráttunni fyrir mannréttindum og hjálpa meira til í átt að bættum lífskjörum allra sem búa í álfunni. Ef menn treysta sér ekki til þess leyfið þá einfaldlega þjóðinni að taka þetta skref og meta það sjálf.

Með fullri aðild getur Ísland orðið þjóð meðal þjóða, tryggt eiginhagsmuni og í senn beitt rödd sinni til að hjálpa öðrum þjóðum. Með virkari þátttöku í Evrópusamstarfinu getum við tekið sterkari afstöðu með friði og frjálslyndi og um leið skapað betri lífskjör. Við megum nefnilega ekki gleyma því að Evrópusambandið er í grunninn friðarsamband. Það var beinlínis stofnað til að koma í veg fyrir fleiri heimsstyrjaldir og þær hörmungar sem Evrópubúar upplifðu allt of oft áratugina og aldirnar þar á undan. Í Evrópusambandinu sannast hversu samofið viðskiptasamstarf, viðskiptafrelsi, opinn markaður og frjáls för fólks er varnarsamstarfi. Hervarnir og viðskiptafrelsi, þetta mikla svigrúm sem við fáum í gegnum ESB, eru tvær hliðar á sama peningi. Evrópusamstarfið bindur saman efnahagslega og pólitíska hvata með það að markmiði að tryggja og viðhalda friði í Evrópu sem er æðsta markmið þess. Hvers vegna þá að útiloka frekari þátttöku okkar á þessu sviði þegar kostirnir eru svo augljósir? Eigum við a.m.k. ekki að láta fara fram almennilegt hagsmunamat þegar kemur að þessu?