152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[14:26]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Allt öryggisumhverfi heimsins er algerlega breytt, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, og það verður að taka upp virkt samtal við þann aðila sem hefur skuldbundið sig til þess að tryggja ytri varnir okkar, ríkisins, íslensku þjóðarinnar. Þetta samtal hlýtur að taka mið af atburðum síðustu vikna og hagsmunamat okkar hlýtur að taka mið af því sem er búið að gerast. Þess vegna verðum við að fara í það að meta og ræða við Bandaríkin um að taka upp samninginn og tryggja öryggi okkar og varnir. Við hljótum að gera það.

Við hljótum líka að meta aðstæður þegar Evrópusambandið er í auknum mæli að taka meira til sín af varnar- og öryggismálum álfunnar. Hvað eru Danir að gera? Þeir hafa áttað sig á því að þetta úrelta ákvæði þeirra um að sitja ekki við borðið þegar verið er að ræða varnarmál gengur ekki. Það er andstætt hagsmunum dönsku þjóðarinnar. Þess vegna eru allir flokkar að berjast fyrir því að það verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslunni að afnema þann fyrirvara, af því að þeir telja betra að vera við borðið. Og þess vegna spyr ég — eða það er erfitt fyrir ráðherra að svara núna og því ekki sanngjarnt af mér að spyrja ráðherra. En þess vegna segi ég bara: Það er betra fyrir okkur Íslendinga að vera við borðið, ekki bara þegar kemur að hagsmunum okkar til þess að tryggja viðskiptafrelsi, aukna og stærri markaði, tryggja að þegar þrengir að (Forseti hringir.) í heiminum séum við með stærri markaði fyrir vörur okkar, sem eykur frið og frelsi í álfunni, heldur líka hljótum við að vilja hafa eitthvað um það að segja þegar kemur að því að Evrópusambandið fari í auknum mæli að ákvarða um öryggis- og varnarmál álfunnar. Eigum við að ræða norðurslóðir? Eigum við að gera það? (Gripið fram í: Já.) Já, gerum það nefnilega. Eigum við að ræða líka aukinn þunga víða annars staðar frá? Er þá ekki betra að vera í skjóli með vinaþjóðum okkar? Við erum sterk, við Íslendingar, en við erum enn sterkari þegar við erum saman og sýnum samstöðu með öðrum þjóðum. Það eigum við að gera og það gerum við best með því að vera aðilar að Evrópusambandinu.