152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[14:46]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, við Íslendingar erum ekki með her en við höfum unnið borgaralega þjónustu í tengslum við NATO, t.d. við flugumferðarstjórn í Kósóvó og Kabúl í Afganistan. Við höfum verið að veita ýmsa þjónustu sem hefur tengst þessu, t.d. hafa blaðamenn verið töluvert að vinna fyrir NATO og ýmis svona borgaraleg störf. Við Íslendingar höfum líka lagt mikla áherslu á jafnréttismálin og höfum unnið töluvert mikið starf innan NATO í höfuðstöðvunum í Brussel. Auðvitað eigum við að taka mjög virkan þátt í þessu starfi. Það segir sig sjálft að þetta er eitt merkasta samstarf sem við tökum þátt í. Ég hef oft talað um það í ræðum hversu mikil gæfa það var fyrir þjóðina að ganga í Sameinuðu þjóðirnar 1945, NATO 1949, varnarsamningurinn 1951 og Norðurlandasamstarfið 1952. Þessar ákvarðanir voru stórar á sínum tíma og auðvitað eigum við að gera allt sem hægt er til að vinna náið með vinaþjóðum okkar í NATO. Ég held að einnig sé hægt að vinna að uppbyggingu samfélaga eins og í Austur-Evrópu, í orkumálum, af því ég held að öryggis- og orkumál eigi aldeilis eftir að samþættast á næstu misserum. Það er gríðarlega víða, held ég, hægt að taka þátt í samvinnu og við getum komið inn í borgaralega starfsemi sem snýr að NATO á mjög mörgum sviðum.