152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[14:48]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar og tek undir með honum að framlag okkar hefur verið mikilvægt í gegnum þessa borgaralegu þjónustu. Við höfum líka haft afspyrnugóða sérfræðinga á sviði fjölmiðla og blaðamennsku og höfum nýleg dæmi um að þar hafi okkar færasta fólk verið að stökkva inn í og hjálpa til. Jafnréttismálin eru líka gríðarlega mikilvæg.

Mig langar engu að síður að spyrja hv. þingmann varðandi varnarsamninginn, annan af tveimur hornsteinum okkar varnar- og öryggisstefnu. Hinn hornsteinninn er að sjálfsögðu aðildin að NATO en varnarsamningurinn er tvíhliða og hann er við Bandaríkin. Hann er frá 1951 og hefur ekki verið tekinn upp að neinu ráði. Það hefur þurft að snurfusa hann og aðlaga, m.a. eftir brotthvarf hersins. En eftir stendur að það er ekki skýrt í samningnum hvort hann taki til netöryggis eða netárása. Það er ekki skýrt í samningum hversu langan tíma Bandaríkjamenn ætla að gefa sér til að bregðast við kalli okkar um aðstoð til þess að verja okkur. Mér finnst að okkur beri skylda til þess, þegar aðstæður eru með þessum hætti, að tala við þann aðila sem einna helst ber ábyrgð á því að sjá um varnir fyrir okkur Íslendinga. Samstarfið við Bandaríkjamenn hefur verið gott svona almennt séð frá 1951 og í gegnum söguna. Þetta er dýrmætt samstarf. Þetta er mikilvægt samstarf fyrir okkur. Við verðum að rækta það en ég tel einboðið að við eigum, í ljósi þeirrar erfiðu og hröðu þróunar sem nú er í öryggismálum heimsins, að taka þennan samning upp og ræða við vini okkar, Bandaríkjamenn, um það hvernig hægt sé að skerpa og skýra á ákveðnum hlutum.

Ég spyr: Er hv. þingmaður andvígur því að rætt verði við Bandaríkjamenn um að skýra og skerpa á þessum hlutum í varnarsamningnum og eftir atvikum taka hann upp?