152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[15:13]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að hrósa hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýra og greinargóða skýrslu og yfirferð. Vinnubrögð utanríkisþjónustunnar eru til fyrirmyndar að vanda. Viðfangsefni utanríkisþjónustunnar eru víðfeðm og af nógu er að taka við lestur skýrslunnar. Hún ber þess auðvitað einhver merki að vera að miklu leyti undirbúin áður en Pútín réðst inn í Úkraínu fyrir aðeins örfáum dögum síðan. Innrásin hefur auðvitað verið allsráðandi í umræðu um alþjóðamálin síðan og lestur skýrslunnar vekur mann til umhugsunar um hversu mikið getur breyst á örskömmum tíma. Allt er í heiminum hverfult, kvað skáldið.

Fyrst ég er byrjuð að ræða stríðsátök er viðeigandi að byrja á öryggis- og varnarmálunum. Eins og lýst er í skýrslunni eru hornsteinar öryggis og varna Íslands annars vegar aðildin að NATO og hins vegar varnarsamningurinn við Bandaríkin. Atburðarás síðastliðinna daga hefur líka sýnt svart á hvítu mikilvægi þessa. Til þess að tryggja þátttöku og framlag Íslands í þessu varnarsamstarfi þurfum við að tryggja endurnýjun, rekstur og viðhald varnarinnviða okkar og tryggja að hér sé til staðar viðbúnaðargeta í samræmi við skuldbindingar okkar. Nágranna- og samstarfsríki okkar hafa stóraukið útgjöld til öryggis- og varnarmála í takt við aukna spennu og óstöðugleika í umhverfi okkar. Það er því jákvætt að á vakt okkar Sjálfstæðismanna í utanríkisráðuneytinu hafi þessi mál verið tekin alvarlega. Varnarmálaskrifstofa ráðuneytisins hefur verið endurvakin, sérstök deild fjölþáttaógna hefur verið stofnsett og ráðist hefur verið í umtalsverð viðhalds- og endurbótaverkefni á varnarmannvirkjum á öryggissvæðum. Virk þátttaka okkar í varnartengdum verkefnum og viðhald varðarinnviða okkar er sömuleiðis í takt við þjóðaröryggisstefnu okkar sem kveður skýrt á um framlag Íslands til að styðja við öryggis- og varnartengd verkefni. Þar munum við ekki láta okkar eftir liggja.

Frá öryggis- og varnarmálum liggur beinast við að fara í norðurslóðamál. Í annað sinn í sögu Norðurskautsráðsins sóttu allir utanríkisráðherrarnir vel heppnaðan fund hér á Íslandi í Hörpu á síðasta ári. Þar var metnaðarfull ráðherrayfirlýsing undirrituð og samkomulag náðist í fyrsta sinn um framtíðarstefnu fyrir norðurslóðir. Óvissa er uppi um áhrif innrásar Rússlands á samskipti Rússlands við Vesturlöndin í norðurslóðamálum en það er næsta víst að rafmögnuð samskiptin smitist þangað. Yfirlýst markmið Íslands og annarra norðurskautsríkja um lágt spennustig á norðurslóðum rímar illa við aukna hernaðaruppbyggingu á svæðinu.

Virðulegi forseti. Samkvæmt skýrslu utanríkisráðherra telur alþjóðleg þróunarsamvinna 37% af útgjöldum til utanríkismála á síðasta ári. Hins vegar er ljóst að mikið bakslag hefur orðið á sviði þróunarsamvinnu og sums staðar hefur árangur af henni farið aftur um áratugi. Það eru vægast sagt vondar fréttir. Þetta á m.a. við í jafnréttismálum í þróunarríkjum, sérstaklega hvað varðar fjölgun barnahjónabanda og á ótímabærum þungunum táningsstúlkna. Það er þyngra en tárum taki að hugsa til þess og ætti að vera okkur hvatning til að leggja mikla áherslu á slík þróunarsamvinnuverkefni og árangur af þeim.

Það er jákvætt að Ísland hafi lagt sitt af mörkum til bóluefnasamstarfs á vegum COVAX og til UNICEF til að tryggja jafnt aðgengi að bóluefnum í þróunarríkjum. Staðreyndin er samt sú að hlutfall fullbólusettra er um 11% í Afríku og hlutfall bólusettra heilbrigðisstarfsmanna í verst settu ríkjunum er skammarlega lágt. Aðgengi heimsins að bóluefnum er sannarlega ekki jafnt og ég hef saknað þess að meira fari fyrir fyrir þeim sjónarmiðum hérlendis, en fókusinn hefur meira verið á átak til að bólusetja almennra borgara með þriðja og fjórða bóluefnaskammti. Þá er það líka áhyggjuefni hversu mikil og alvarleg áhrif heimsfaraldur hefur haft á grunnbólusetningar við lífshættulegum smitsjúkdómum í þróunarríkjum.

Áhersla á réttindi hinsegin fólks í allri utanríkisþjónustunni er til eftirbreytni enda eru mannréttindi hornsteinn íslensku utanríkisstefnunnar. Þar er þróunarsamvinnan ekki undanskilin og Ísland fylgist því sérstaklega með stöðu mála hvað varðar réttindi hinsegin fólks í samstarfsríkjum og áhersluríkjum í þróunarsamvinnu. Því miður er víða pottur brotinn og í einu af hverjum þremur ríkjum heims teljast hinsegin sambönd enn glæpur samkvæmt lögum. Víða í Afríku og í Miðausturlöndum er ástandið mjög slæmt að þessu leyti. Hryllingssögur af ofsóknum gegn hinsegin fólki á Gaza-ströndinni, í Úganda eða í Tsjetsjeníu láta engan ósnortinn. Það er skylda okkar að halda því á lofti að mannréttindi eru algild, eiga alltaf við og um alla. Það er því jákvætt að sérstökum fjármunum sé varið í verkefni í þróunarsamvinnu til að styðja við réttindi hinsegin fólks í þróunarríkjum.

Ég má til með að fagna því sérstaklega að ungliðaverkefni Sameinuðu þjóðanna verði haldið áfram, en íslensk ungmenni öðlast þar víðtæka reynslu og þekkingu á fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu. Þá er frábært að heyra að íslensku GRÓ-skólarnir hafi tekið aftur við sér eftir Covid en skólarnir eru ein af meginstoðum okkar í alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Það er gríðarlega mikið virði fólgið í því að efla getu stofnana og einstaklinga í þróunarríkjum á þeim sviðum þar sem Ísland býr yfir sérþekkingu. Þá vil ég hvetja hæstv. utanríkisráðherra til dáða þegar kemur að auknu samstarfi við Síerra Leóne á sviði þróunarsamvinnu en undirbúningur hefur tafist vegna heimsfaraldurs. Ég fékk tækifæri til að kynnast landinu og verkefnum þar vel og er þess fullviss að sérþekking okkar muni þær nýtast sérstaklega vel.

Ég vil sömuleiðis hvetja hæstv. ráðherra til að gefa gaum að sjóðnum Þróunarfræ, sem ég veit að hún þekkir, og var komið á fót í samstarfi við nýsköpunarráðuneytið. Ég held að þar geti verið mikil tækifæri í því að efla nýsköpun og þátttöku frumkvöðla- og nýsköpunarfyrirtækja í þróunarsamvinnu en ekki var úthlutað úr sjóðnum á síðasta ári.

Virðulegi forseti. Þegar kemur að utanríkisviðskiptum, sem er einn af höttum utanríkisráðherra, staldra ég við EFTA-kaflann. Það er ljóst að bestu bitarnir hafa þegar verið valdir, ef svo má komast að orði, og verkefni og viðræður sem þegar eru hafnar eða vonir standa til að hefjist munu krefjast meira erfiðis svo að hægt sé að stækka fríverslunarnetið. Sömuleiðis þarf að uppfæra og nútímavæða gildandi samninga. EFTA-samstarfið stendur frammi fyrir miklum áskorunum en jafnframt tækifærum. Allt bendir til þess að alþjóðlegur vöxtur muni að miklu leyti verða utan Evrópu á næstu árum og því eru opin og frjáls viðskipti gríðarlega mikilvæg fyrir okkur. Það er mikið í húfi fyrir evrópsk fyrirtæki, launþega og neytendur að fá að taka þátt í að njóta ávaxtar þessa vaxtar. Það er ljóst að borgaraþjónustan heldur áfram að standa undir nafni og þjónusta Íslendinga nær og fjær. Það er ánægjulegt að viðskiptavaktin sem var sett á laggirnar vegna heimsfaraldurs sé enn starfrækt. Þannig geta íslensk fyrirtæki leitað til utanríkisþjónustunnar vegna erinda sem þarf að leysa án tafar en íslenska utanríkisþjónustan vakti athygli víða út fyrir landsteinana fyrir lipra og skjóta þjónustu við fólk og fyrirtæki á erfiðum tímum í heimsfaraldri.

Virðulegi forseti. Mig langar að enda yfirferðina, þar sem ég neyddist til að velja úr bara örfáa punkta, á því að nefna rekstur utanríkisráðuneytisins. Samkvæmt stöðu í bráðabirgðauppgjöri er afgangur af rekstrinum. Meðal skýringa á því er stórfækkun ferða vegna fundarsóknar og annarra viðburða. Þó svo að heimurinn sé að einhverju leyti að komast í fyrra horf er fjölgun fjarfunda og fækkun ferðalaga opinberra starfsmanna klárlega fagnaðarefni. Fjarfundir geta aldrei komið alveg í staðinn fyrir fundi í raunheimum en þeir eru góð viðbót og stuðla vonandi að færri vinnuferðum til frambúðar. Það er bæði hagkvæmt og umhverfisvænt.