152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[15:22]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil, eins og aðrir þingmenn, þakka fyrir skýrslu hæstv. utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál, en eðli málsins samkvæmt mun ég aðeins getað talað um örfá efnisatriði hér á þeim stutta tíma sem er til umráða. Ég ætla að byrja á því að ræða stöðu flóttamannamála í heiminum. Það hafa aldrei jafn margir verið á flótta í heiminum og í dag. Talið er að það séu um 84 milljónir og þeim hefur fjölgað um ríflega 2 milljónir eftir að Pútín réðst inn í Úkraínu. Þessi vandi er víða. Hann er í Evrópu, að sjálfsögðu, og hann er auðvitað að stórum hluta afleiðing stríðsrekstrar, hvort sem það hefur verið í Sýrlandi eða Afganistan eða annars staðar og því miður er ekkert sem bendir til þess að úr honum dragi. Hvers vegna nefni ég þetta núna? Ég nefni það vegna þess að við erum öll, mjög skiljanlega, vakin og sofin yfir ástandinu í Úkraínu sem er hrikalegt. Við erum vakin og sofin yfir því hvað við getum gert til að aðstoða Úkraínumenn og til að koma til hjálpar af því að það er komið stríð í Evrópu, á þröskuldinn heima hjá okkur.

Mig langar samt að minna þingheim á að fyrir minna en ári síðan féll stjórnin í Afganistan eftir að hersveitir Bandaríkjamanna og bandamanna innan NATO tóku sig upp og fóru á örstuttum tíma, án þess að það hafi verið undirbúið tilhlýðilega eða þær ráðstafanir gerðar sem hefðu hugsanlega getað komið í veg fyrir valdatöku talíbana. Eftir situr afganska þjóðin, svikin af okkur sem þó vorum að reyna að aðstoða í ein 20 ár. Ábyrgð okkar á ástandinu þar hverfur ekki þrátt fyrir nærtæk og mjög brýn verkefni í okkar eigin heimsálfu, Evrópu.

Mig langar fyrst og fremst að beina athyglinni norður á bóginn, að málefnum norðurslóða, í minni stuttu ræðu. Stefna Íslands í málefnum norðurslóða var endurnýjuð á síðasta þingi og samþykkt ítarleg og góð stefna sem er samtvinnuð grundvallarhagsmunum, grundvallarþjóðarhagsmunum og þjóðaröryggishagsmunum Íslands í einu og öllu. Hún byggir á hugsuninni um sjálfbæra þróun, heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, baráttunni gegn loftslagsbreytingum, vernd náttúrunnar, á því að tryggja mannréttindi og ekki síst mannréttindi frumbyggja og velferð þeirra sem búa á norðurslóðum. Norðurskautsráðið er lykilapparat í samskiptum ríkja sem eiga landamæri eða liggja við norðurskautsbauginn. Eins og þingmenn vita þá eiga átta ríki aðild að Norðurskautsráðinu; Norðurlöndin fimm, Kanada, Bandaríkin og Rússland. Ísland fór með formennsku í Norðurskautsráðinu til vorsins 2021 og stóð þar farsællega fyrir formennskunni þrátt fyrir ýmsar hömlur, fyrst og fremst vegna heimsfaraldurs.

Nú hafa stjórnvöld í Rússlandi tekið við og eru samkvæmt reglum Norðurskautsráðsins í formennsku í Norðurskautsráðinu til 2023. Mig langar að nota tækifærið hér og inna hæstv. utanríkisráðherra eftir því með hvaða hætti það hafi verið rætt af hinum aðildarríkjunum sjö í Norðurskautsráðinu að formennskan sé í höndum Rússa í ljósi innrásarinnar í Úkraínu. Norðurskautsráðið og metnaður í samstarfinu á norðurslóðum hefur ætíð byggst á því að það svæði ætti að vera laust við hernað, að það væri í rauninni svæði þar sem öll samskipti færu fram friðsamlega, þar sem ríki sætu við borðið á jafnréttisgrundvelli. Það er þannig í Norðurskautsráðinu og þess vegna er það mjög mikilvægur samstarfsvettvangur fyrir Ísland. En auðvitað fara hagsmunir þessara átta ríkja ekki alltaf saman í einu og öllu, að sjálfsögðu ekki, og auðvitað eru ríkin misstór og misöflug. En það skiptir mjög miklu máli að það sé rætt innan Norðurskautsráðsins hvað þessi hörmulegu tíðindi og árásarstríð Pútíns í Úkraínu þýðir innan ráðsins, hvaða áhrif það hefur og hvernig skuli með það fara. Rödd Íslands hefur alltaf verið sterk í Norðurskautsráðinu og ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að þar séum við með vettvang þar sem Ísland getur og hefur beitt sér með mjög afgerandi hætti og tekist vel til. Það er líkt og með setu okkar í mannréttindaráðinu og það gleður mig að sjá hér í skýrslunni að það eigi aftur að sækjast eftir því að sitja í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna árin 2025–2027, af því að við getum beitt okkur með markvissum hætti á vettvangi eins og í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og/eða Norðurskautsráðinu og í raun með miklu veigameiri hætti en við getum gert á ýmsum öðrum sviðum utanríkismálanna.

Mér finnst mikilvægt að nota tækifærið hér til að ræða þetta og vekja athygli á þessari stöðu í Norðurskautsráðinu. Það þarf ekki að vera þannig að áhrifin séu bein þarna á milli en við vitum að það hlýtur að hafa áhrif, rétt eins og það hefur áhrif á öll önnur samskipti á milli Evrópuríkja.

Að öðru leyti langar mig til að nota tækifærið hér í minni stuttu ræðu til að ítreka og taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa rætt um gildi þess og nauðsyn að Ísland ljúki aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Það kom fram bæði í máli hv. þm. Loga Einarssonar og hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Við stöndum frammi fyrir gríðarlegum verkefnum í álfunni. Við stöndum saman um aðildina að Atlantshafsbandalaginu, flestir flokkar á Alþingi. Það er mjög mikilvægt nú þegar allt hefur breyst á einungis tveimur vikum í Evrópu að við skoðum það með blákalt mat á þjóðarhagsmunum og öryggishagsmunum Íslands til grundvallar og að við skoðum það með opnum huga og af fullri alvöru að taka upp þráðinn í aðildarviðræðum Íslands að Evrópusambandinu. Þar er annar vettvangur þar sem ríki njóta jafnræðis við borðið þar sem ákvarðanirnar eru teknar. Það skiptir máli og við vitum sem smáþjóð að það skiptir okkur meira máli en nokkuð annað í alþjóðasamstarfi að vera jafnfætis öðrum þjóðum við það borð þar sem verið er að véla um framtíð mannkyns, ætla ég að leyfa mér að segja, hvort sem það er á vettvangi loftslagssamningsins, innan Evrópusambandsins, innan Norðurskautsráðsins eða á öðrum þeim stað þar sem við beitum okkur af alefli sem ríki.

Ég vil einnig nota tækifærið og benda á að innan samstarfsins á norðurslóðum og í Norðurskautsráðinu er unnið í vinnuhópum þar sem sérfræðingar vinna saman. Mig minnir að þetta séu sex sérfræðingahópar sem eru að vinna gríðarlega merkilegt starf og rannsóknir, m.a. á sviði heilbrigðismála, velferðar- og annarra mikilvægra mála á norðurslóðum. Ég hygg að þar sé víða átt frumkvæði að ekki bara vísindarannsóknum heldur að stefnumótun sem getur nýst okkur á öðrum sviðum og í öðru samstarfi.

Ég þarf ekki að ítreka mikilvægi umhverfismála á norðurslóðum. Eins og allir vita eru norðurslóðir og norðurskautssvæðið svæði þar sem loftslagsbreytinga gætir fyrst og mest. Það var þannig fyrir réttum 25 árum síðan þegar Norðurskautsráðið var að fara af stað að þá var talað um það sem einhvern óhugsandi framtíðarmöguleika að sífrerinn í Síberíu og á norðurslóðum gæti byrjað að gefa sig og losa metan. Nú er það að gerast og við gætum jafnvel verið að nálgast vendipunkt í þeirri ömurlegu þróun sem loftslagsbreytingarnar eru.