152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[15:46]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér skýrslu utanríkisráðherra. Ég verð að viðurkenna að ég held að ég hafi tekið þátt í þessari umræðu á hverju ári frá því að ég settist á þing en það er ánægjulegt að sjá hversu margir taka þátt í umræðunni núna. Málið er brýnt og hefur reyndar alltaf verið brýnt að við ræðum um utanríkismál. Það hefur kannski ekki farið nægilega mikið fyrir því en auðvitað er ástandið núna með þeim hætti að við verðum að ræða þetta mál. Ég ætla að taka undir það sem ég hef heyrt marga þingmenn segja hér og hrósa hæstv. utanríkisráðherra fyrir framgöngu sína á síðustu dögum. Það er mikilvægt að hér ríki samstaða og það er mikilvægt að við tölum hátt og skýrt þegar kemur að því að ráðist er inn í annað land, brotin eru alþjóðalög og brotið er á mannréttindum fólks. Við eigum alltaf að nota rödd okkar þegar svo ber undir og við eigum alltaf að tala skýrt og fyrir það vil ég hrósa hæstv. ráðherra.

Ég skal líka viðurkenna að ég átti alls ekki von á því að til slíkra stríðsátaka kæmi í Evrópu á þeim tíma sem ég sæti hér á þingi. Ég hélt reyndar að það væri liðin tíð að við sæjum vopnaða hermenn, skriðdreka, sprengjuárásir og slíkt í Evrópu. Ég bara trúði því að slíkt myndi ekki henda aftur. Ég er þess þó fullmeðvituð að auðvitað eru ógnirnar víða en maður átti kannski von á öðruvísi ógnum, út af umhverfisöryggismálum, netöryggismálum og öðrum fjölþáttaógnum og frekar þá að stríðsrekstur væri í formi dróna eða eitthvað slíkt. En þessar myndir sem birtast manni núna á hverjum degi eru bara hryllilegar og eitthvað sem ég hélt að við myndum ekki þurfa að upplifa aftur.

Mig langar aðeins í því samhengi að segja að við erum auðvitað búin að sjá þessa spennu stigmagnast og því miður höfum við í hinum vestræni heimi bara ekki tekið það nógu alvarlega. Pútín og aðgerðir hans hafa ógnað heimsmynd okkar í töluverðan tíma, þetta er ekkert alveg glænýtt. Maður veltir því oft fyrir sér: Hefði verið hægt að stíga fastar niður þegar ráðist var inn í Georgíu? Hvað með Krímskagann og þegar Lúkasjenkó stelur í rauninni forsetastólnum í Hvíta-Rússlandi, sem er auðvitað eina ástæðan fyrir því að nú er hægt að ráðast inn í Úkraínu í gegnum Hvíta-Rússland? Allt þetta fær mann til að hugsa þessa hluti og ekki síst það að í gegnum samstarf okkar þá vinnum við mjög mikið og náið með Norðurlöndunum en ekki síður Eystrasaltsríkjunum. Þessi þrjú minni Eystrasaltsríki eru nátengd okkur og þau eru okkur mjög þakklát fyrir stuðning á sínum tíma en þau hafa líka í svolítinn tíma kallað eftir aukinni aðstoð. Þau hafa verið að benda okkur á hvað ógnin er mikil því að þau upplifa það auðvitað af nágrönnum sínum og hafa gert í talsverðan tíma.

Mig langar líka að tala um Norðurlandasamstarfið. Ég ætla aðeins að fletta yfir hérna, það er svo margt sem ég hefði viljað segja. Sem formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs átta ég mig mjög vel á mikilvægi þess að við vinnum náið með Norðurlöndum. Þetta eru ríki sem við eigum mjög margt sameiginleg með samfélagslega og félagslega en líka út frá öryggishagsmunum. Það var auðvitað svolítið nýtt að við sáum það á Norðurlandaráðsþingi nú í haust að Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, mætti á fundinn og hélt býsna góða ræðu og sat fyrir svörum. Það er svolítið nýtt að á vettvangi Norðurlandaráðs séum við farin að tala um öryggismál. En nota bene, þetta var í haust og það sýnir að ástandið hefur verið að magnast upp og við þurfum að taka því mjög alvarlega.

Þá ætla ég að færa mig yfir á norðurslóðir sem eru málaflokkur sem ég held að sé okkur einna mikilvægastur í alþjóðasamhengi. Þarna erum við staðsett á mjög sérstökum stað út frá öryggis- og varnarmálum. Við höfum átt sæti í Norðurslóðaráðinu þar sem við höfum verið við borðið, setið við borðið með sama atkvæðisrétt og aðrir í Norðurslóðaráðinu, þ.e. Rússar öðrum megin, Bandaríkin hinum megin og Kanada og svo Norðurlöndin öllsömul. Ég heyrði í ræðum og samtali við hæstv. ráðherra áðan einmitt þessar vangaveltur, það hefur verið þannig að öryggismál hafa ekki verið til umræðu á þessum vettvangi og það er auðvitað af ákveðinni ástæðu. En það hefur ítrekað verið kallað eftir því að finna þurfi einhvern vettvang til að ræða öryggismál á þessum slóðum. Þarna höfum við líka séð Rússa byggja mjög upp herstyrk sinn á norðurslóðum. Þeir hafa verið í töluverðri uppbyggingu og rök þeirra eru þau að þeir séu að gæta landamæra sinna sem eru kannski allt í einu að birtast núna við bráðnun íss. En þegar þetta land er undir stjórn aðila eins og Pútíns sem sýnir af sér það sem hann hefur sýnt á síðustu árum og ekki síst á síðustu dögum og vikum, þar sem blákalt er logið til um hvað standi til, þá er eðlilegt að við hræðumst og það er alveg eðlilegt að við veltum fyrir okkur: Og hvað með norðurskautið? Hvað gæti mögulega gerst þar?

Ég ætla að halda aðeins áfram og fara næst í loftslagsmálin sem eru nátengd norðurslóðamálum. Ég skal alveg viðurkenna að ég átti frekar von á því að við værum að tala um í norðurslóðamálum hættu tengda loftslagsbreytingum. Það er auðvitað alveg ofboðslega „relevant“. Við værum væntanlega ekki að tala svona mikið um norðurslóðamál ef ekki væri vegna loftslagsvandans og vegna bráðnunar íss, þá væri þarna bara ís. En nú er ísinn að bráðna og það hefur ofboðslega mikil áhrif á lífríkið allt en líka á öryggis- og varnarhagsmuni okkar. Það hefur aðeins verið rætt hér og maður má alveg velta því fyrir sér hvort þetta sé ekki okkar stærsta mál. Ég hef sagt það frá því ég byrjaði á þingi að loftslagsmálin væru stærsta viðfangsefnið en svo kemur alltaf eitthvað annað. Það kemur Covid og það kemur stríð í Evrópu, en við megum á sama tíma ekki gleyma því að þetta er risastór málaflokkur.

Því tengd eru auðvitað orkumálin og orkuskiptin hér á landi og það að við séum svo lánsöm að eiga þess kost að vera algjörlega sjálfbær hvað orku varðar ef við förum alla leið í orkuskiptunum. Þegar maður horfir á stóru myndina og fer að velta fyrir sér því sem er að gerast í Evrópu í dag er sorglegt að horfa upp á það hve Evrópa og kannski sérstaklega Þýskaland, stærsta ríki innan Evrópusambandsins, hafa leyft sér að verða háð orku, gasi, frá Rússlandi og hvað þessi kaup á gasi eru að öllum líkindum einmitt að renna núna inn í hernaðaraðgerðir Pútíns. Maður veltir fyrir sér: Ef þessar þjóðir hefðu gengið lengra í því að uppfylla loftslagsmarkmiðin sín, í því að skipta út orkugjöfum fyrir græna orkugjafa, væri ástandið eitthvað betra? Góðu fréttirnar eru alla vega þær að Þjóðverjar hafa stigið ákveðin skref í því að ætla ekki að láta gas renna núna um Nord Stream 2 leiðsluna og með því draga úr eða stoppa alveg innkaup á gasi frá Rússlandi.

Þetta er auðvitað allt of stuttur tími. Ég hélt að ég hefði alla vega 15 mínútur en 10 mínútur eru allt of stuttur tími. Ég vil þá enda á þessu: Lífskjör Íslendinga byggja á frjálsum vöru- og þjónustuviðskiptum. Þau eru risamál fyrir Ísland og mér finnst við hafa staðið okkur mjög vel í því og ég held að hægt sé að hrósa hæstv. ráðherra, og ekki síður fyrrverandi ráðherra, fyrir að hafa staðið vörð um hagsmuni Íslands þegar kemur að þessum þáttum. Það þarf ekki að ganga í Evrópusambandið til að eiga gott samstarf við Evrópusambandið og ríki þess. EES-samningurinn skiptir okkur öllu máli en ekki bara EES-samningurinn heldur það að vera almennt með það viðhorf að vilja vinna með öðrum ríkjum, vilja eiga frjáls vöru- og þjónustuviðskipti. (Forseti hringir.)

Þá ætla ég að enda á því sem ég byrjaði ræðuna á: Við eigum auðvitað alltaf — alltaf, alltaf — að tala fyrir mannréttindum, jafnrétti (Forseti hringir.) og að alþjóðalög séu virt því að það er eina leiðin til að ná fram friði í heiminum.