152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[16:10]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Talandi um rauða og reiða hv. þingmenn. Ég geri enga athugasemd við það þótt þingmaðurinn reiðist aðeins, það er allt í lagi, sannleikanum verður hver sárreiðastur. Hv. þingmaður spyr: Ertu búinn að ræða þetta við þessa þjóðir að það sé ekki viðskiptafrelsi? Að sjálfsögðu, það er ekkert leyndarmál að þetta er tollabandalag. Heldur þingmaðurinn að Danir og Svíar viti ekki af því að þeir eru í tollabandalagi? Trúir hv. þingmaður því? Eitt land var að fara út úr Evrópusambandinu og hver voru helstu rökin? Þau vildu viðskiptafrelsi aftur. Það er svo skrýtið þegar maður er að ræða við hv. þingmenn og þá ESB-sinna sem stundum poppa upp, þó oftast fari lítið fyrir þeim, að ræða í alvöru, að halda uppi samræðu um það hvort ESB sé tollabandalag eða ekki.

Það var ekkert viðskiptaráðuneyti, nema bara það sem maður var að eiga við Brussel, í Bretlandi áður en þeir gengu út. Það þurfti að setja allt af stað aftur. Menn höfðu ekki gert fríverslunarsamninga í áratugi vegna þess að Brussel gerði þá fyrir þá og þeir voru mjög ósáttir við áhersluna þar vegna þess að það voru ekki hagsmunir Breta hvernig það var gert. Stutta svarið við spurningunni um hvort ég talaði um þetta við kollegana og aðra í öðrum löndum er já, en það þarf ekkert að útskýra það fyrir þeim. Þeir vita þetta. Það eru bara íslenskir ESB-sinnar sem einhvern veginn skilja þetta ekki sem er með slíkum ólíkindum.

Og mannréttindi. Virðulegur forseti. Ég var að fara yfir það að sem betur fer búum við við meiri og betri mannréttindi en flest ríki innan ESB. Þarf ég að útskýra það líka fyrir hv. þingmanni? Er það ekki eitthvað sem er öllum ljóst? Mér finnst hugrekki að tala um gjaldmiðilinn og fara að tala um evruna en það er sjálfsagt að fara yfir það aftur, alveg sjálfsagt. Ef menn halda að evrunni sé hampað um alla álfu í þeim löndum sem eru með evru þá er það fullkominn misskilningur.

Þegar kemur að loftslagsmálum þá er ástæða fyrir menn að líta til okkar. Við höfum margt fram að færa og þegar menn halda því fram að við eigum eitthvað að elta Evrópusambandið í loftslagsmálum nei, við tóku þessar ákvarðanir sjálf sem við erum að flytja út, hugvitið, (Forseti hringir.) eins og t.d. hitaveituna. Það hefur ekkert með Evrópusambandið að gera, ekki nokkurn skapaðan hlut.