152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[16:12]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Já, auðvitað á hann fundi og hefur átt fundi með helstu ráðamönnum ríkja Evrópu í sinni tíð sem utanríkisráðherra. En það sem ég er kannski að reyna að draga fram er að þótt ríkin viti mætavel að um er að ræða bæði skuldbindingar og svo eitthvað sem menn leggja fram, menn fái eitthvað og gefi eitthvað, eins og er alltaf í svona sambandi — ég held að það sé ekki einhver almenn vitneskja um það í Evrópu, meðal ráðamanna í Evrópu, að það sé ekki viðskiptafrelsi í þessum löndum. Ég held að það segi sig alveg sjálft að það lítur enginn þannig á. Auðvitað er það þannig að þú færir einhverjar fórnir með því að ganga í samband eins og Evrópusambandið en þú færð líka helling í staðinn. Þetta er, eins og ég var að rekja í minni fyrri ræðu, hagsmunamat út frá mörgum mismunandi þáttum og það er ekki hægt að taka út eitthvað eitt afmarkað svið og nota það til að slá allt hitt út af borðinu. Við höfum talað mikið um einn anga af þessu sem er gjaldmiðillinn og sá efnahagslegi stöðugleiki sem að mörgu leyti er meiri í þessum löndum, sérstaklega þeim löndum sem standa nær okkur og eru innan sambandsins af því að þau eru með þennan stærri gjaldmiðil. Við þurfum ekkert að fara mjög djúpt ofan í þá umræðu. En af því að við erum að ræða þetta núna í samhengi við þennan ófrið og þetta stríð sem allt í einu er brostið á í Evrópu, þá er það auðvitað ný vídd inn í umræðuna. Það er alveg hárrétt, sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði hér fyrr í dag, að kannski höfum við ekki verið nógu dugleg við að tala um að Evrópubandalagið er margt, m.a. bandalag um frið. Evrópusambandið var stofnað um frið og á stóran þátt í því að það hefur verið friðsælla í álfunni en var auðvitað löngu á undan. Það eru svo margar hliðar á þessum teningi og þetta snýst um miklu meira en bara (Forseti hringir.) tolla eins og hæstv. ráðherrann stillir málum upp, að sé einhvern veginn algjört lykilatriði í þessu öllu. (Forseti hringir.) Þetta eru mörg önnur svið og þetta allt saman þurfum að samþætta þegar við erum að meta hagsmunina. Ástandið í dag í Evrópu eru enn ein rökin (Forseti hringir.) fyrir því að það er vel fýsilegt að ganga þarna inn og hagsmunum Íslands er betur borgið þar inni en fyrir utan. Þessi skoðanaskipti breyta engu um afstöðu mína í því.

(Forseti (JSkúl): Forseti ítrekar það við hv. þingmenn að virða ræðutíma.)