152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

börn á biðlistum.

[15:47]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Við skulum tala aðeins um börn, þjónustu við börn og ekki bara út frá einhverjum frösum heldur út frá beinhörðum staðreyndum. Í desember biðu 738 börn eftir greiningu hjá Þroska- og hegðunarstöð. Hver var meðalbiðtími? Jú, 12–14 mánuðir. Þetta eru börn sem glíma við ADHD, börn með einhverfu, kvíða, hegðunarvanda og hver einasta vika sem líður án þess að börnin fái viðunandi þjónustu er einni viku of mikið. Það getur aftrað þroska þeirra og það er alvarlegt. Hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð ríkisins er tekið á móti börnum með mjög alvarlegar þroskaraskanir. Þar voru 326 börn á biðlista núna í desember og algengur biðtími er allt að 22 mánuðir. Biðlistar hafa lengst og börnum á biðlistum hefur fjölgað og fjölgað síðan ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók til starfa og síðan hæstv. ráðherra Ásmundur Einar Daðason tók við embætti barnamálaráðherra. Þetta er fyrst og fremst vegna þess að fjárveitingar og auðvitað starfsmannafjöldi er ekki í nokkru einasta samræmi við raunverulega þörf fyrir þjónustu. Við sjáum að vist- og meðferðarheimilum er lokað og reksturinn færður yfir til einkaaðila. Barnahús er löngu sprungið, segir forstjóri Barna- og fjölskyldustofu, og nú kemur betur og betur í ljós að farsældarfrumvarp hæstv. ráðherra er vanfjármagnað, nema meiningin hafi alltaf verið að velta öllum byrðunum yfir á sveitarfélögin án þess að láta fjármagn fylgja. Nú hefur ríkisstjórnin samþykkt fjármálastefnu þar sem gert er ráð fyrir alveg gríðarlegu útgjaldaaðhaldi næstu árin þannig að svigrúmið til útgjaldaaukningar samkvæmt þeirri stefnu er mjög takmarkað. Þess vegna vil ég spyrja. Hve mikið af þessu svigrúmi verður notað til að bregðast við þessum löngum biðlistum og til að bregðast við vanfjármögnun nauðsynlegrar þjónustu við börn? Hvernig ætlar hæstv. ráðherra Ásmundur Einar Daðason að taka á þeim grafalvarlega vanda sem hefur grasserað og hefur ágerst á hans vakt?