152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

börn á biðlistum.

[15:50]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni fyrir þessa fyrirspurn og segja það að til að taka á löngum biðlistum þarf vissulega fjármagn, en það er ekki einungis það sem vantar. Til að mynda hefur fjármagn verið aukið til Ráðgjafar- og greiningarstöðvar og það hefur verið aukið til Barnahúss. Það þarf að auka samtal á milli þeirra aðila sem veita þessa þjónustu vegna þess að oft og tíðum eru sömu sérfræðingarnir að vinna hjá fleiri en einum aðila sem þjónustar börn. Það þarf að mennta fleira starfsfólk sem að þessu kemur og það þarf að skýra alla ferla á milli þessara aðila. Við ætlum okkur að taka þyngsta vandann fyrst sem eru þau úrræði sem eru m.a. undir Þroska- og hegðunarstöð, af því að hv. þingmaður nefndi það. Við heilbrigðisráðherra áttum góðan tveggja tíma vinnufund í síðustu viku þar sem við vorum að undirbúa með hvaða hætti við gerum það. Við erum líka í samtölum við núverandi félags- og vinnumarkaðsráðherra og reiknum með að koma með umgjörð um hvernig við ætlum að taka á þessum þáttum annaðhvort í þessari viku eða næstu.

Af því að þingmaðurinn fullyrti að ekki hefði verið aukið fjármagn til að mynda til Barnahúss þá höfum við aukið fjármagn á síðasta kjörtímabili til Barnahúss, m.a. vegna þess að við vissum að það yrði aukið álag á Barnahúsi í tengslum við Covid-19 faraldurinn. Ég bendi líka á að fyrir tveimur árum var opnað útibú Barnahúss á Akureyri. Það liggur því algerlega fyrir að aukið fjármagn þarf núna áfram inn í Barnahús, m.a. til að bregðast við afleiðingum Covid-19.

Síðan á allt tal um að sú hugsun sem farsældarlöggjöfin byggir á, þar sem við erum að setja tæpa 2 milljarða á ári í innleiðingu á þeirri löggjöf, sé vanfjármögnuð og ófjármögnuð sér enga stoð í raunveruleikanum. Hins vegar þarf að taka til endurskoðunar öll úrræði í málefnum barna. Í stjórnarsáttmála er rammað inn að þar ætlum við okkur að setja reglur eða löggjöf um hámarksbiðtíma eftir nauðsynlegri þjónustu. Sú vinna er komin af stað í nýju ráðuneyti mennta- og barnamála en við ætlum okkur að taka þyngstu úrræðin fyrst. Við erum byrjuð á því. Það þarf aukið fjármagn þar inn (Forseti hringir.) en það þarf líka samtal. Þetta snýst ekki eingöngu um fjármagn. (Forseti hringir.) Það höfum við m.a. séð í Ráðgjafar- og greiningarstöðinni, eins og hv. þingmaður nefndi í sinni ræðu.