152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

geðheilbrigðismál.

[15:55]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegur forseti. Ef benda ætti á tiltekin þjóðarsjúkdóm Íslendinga væri sá að öllum líkindum fyrst og fremst af andlegum toga. Miðað við höfðatölu eigum við að líkindum heimsmet í fjölda þeirra sem glíma við alvarlegan kvíða og þunglyndi og fer fjöldi þeirra að því er virðist vaxandi frá ári til árs. Í ljósi þessa þarf engum að koma á óvart að heimsmetið nær einnig til fjölda ávísana á geðlyf af ýmsum toga, lyfja sem mörg hver valda erfiðum hliðarverkunum. Víst er að samfelldur tveggja ára Covid-drungi hefur hér gert illt sýnu verra og síðan er brostið á með óhugnanlegri innrás, styrjöld sem veldur alvarlegu hugarangri hér sem annars staðar. Biðlistar sérfræðinga og geðlækna hafa aldrei verið lengri og lengjast stöðugt. Eins og margoft hefur verið bent á, m.a. í þessum sal, verða lífsgæðastuðlar okkar aldrei bundnir eingöngu við krónur og aura. Viðvarandi vanlíðan þúsunda og tugþúsunda ungs fólks, eldra fólks, öryrkja og almennra borgara á Íslandi er grafalvarlegt vandamál sem okkur ber að horfast í augu við og grípa til aðgerða gegn, ekki einungis með því að slæva einkennin með lyfjaneyslu. Nú blasir við að fjöldi Covid-smitaðra hefur aldrei verið jafn mikill og einmitt nú. Dauðsföll á undanförnum sex mánuðum hafa verið hér næstum tvöfalt fleiri en dauðsföllin 18 mánuðina þar á undan af völdum heimsfaraldursins. Þessu til viðbótar er það svo stigvaxandi ofbeldi rússneskra stríðsmanna sem okkur berast fréttir af frá degi til dags og valda án nokkurs vafa þeim hópum sem hér um ræðir meiri vanlíðan en okkur órar fyrir.

Er því ekki löngu tímabært, virðulegi forseti, að beina þeirri áskorun til hæstv. heilbrigðisráðherra að nú verði tafarlaust skipaður sérstakur starfshópur vel valinna sérfræðinga er taki þetta vandamál til gaumgæfilegrar rýningar með það fyrir augum að greina hinar raunverulegu rætur þessa grafalvarlega heilbrigðisvanda? Slíkum sérfræðingahópi yrði í framhaldinu gert að leggja fram raunhæfar tillögur til bestu mögulegu úrbóta. Starfshópnum yrði gert að afla upplýsinga um afrakstur rannsókna frá öðrum löndum er verða mættu að gagni (Forseti hringir.) við að varpa ljósi á hvað kunni að liggja að baki þessum ógnvænlega og þungbæra geðheilbrigðisvanda Íslendinga. (Forseti hringir.)

Ég beini því til hæstv. heilbrigðisráðherra að við bregðumst hér við án tafar.