152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

matvælaöryggi.

[16:12]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er gríðarlega mikilvægur málaflokkur sem hv. þingmaður snertir hér á sem er innlendur landbúnaður. Við erum með búvörusamninga sem gilda út árið 2026 og má segja að þar fari í raun og veru mikilvægasta stjórntæki stjórnvalda til að hafa áhrif á það í hvaða átt innlendur landbúnaður þróast. Það liggur fyrir að þessir samningar verða endurskoðaðir að nýju á næsta ári, 2023. Við þá endurskoðun munum við leggja áherslu á það fyrst og fremst að tryggja fæðuöryggi á Íslandi með því að efla innlenda landbúnaðarframleiðslu.

Nú liggja fyrir í samráðsgátt stjórnvalda áherslur og verklag við stefnumótun á sviði matvæla, þ.e. þess málaflokks í heild. Þar er farið heildstætt yfir vinnu nýhafins kjörtímabils við setningu matvælastefnu fyrir Ísland. Þar verður unnið úr fyrirliggjandi drögum að landbúnaðarstefnu sem verður lögð fyrir Alþingi samhliða eða sem hluti af matvælastefnunni. Það eru gríðarlega mikil tækifæri í innlendum landbúnaði og hluti af því felst í næstu endurskoðun búvörusamninga. Þar leggjum við líka til, og munum leggja til, að áherslum í styrkjakerfi landbúnaður verði breytt í þá veru að draga úr framleiðslutengingu stuðnings og að frekar verði stutt við búsetu í sveitum óháð framleiðslugrein og líka aukna áhersla á jarðrækt, aðra landnýtingu, landvörslu og loftslagsmál en ekki síður aukna grænmetisframleiðslu og stóraukningu á sviði lífræns landbúnaðar.