152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

störf þingsins.

[14:22]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Að undanförnu hafa birst fréttir af sandfoki í Vík í Mýrdal er tengist lægðagangi yfir landið. Ástæðan er mikill ágangur sjávar sem brýtur stöðugt á grónu landi milli fjöruborðs og byggðar sem getur fangað sandinn áður en hann berst inn í þorpið. Á síðastliðnum árum hafa tugir metra af landi tapast með þessum hætti og fjöruborðið færist stöðugt nær byggðinni. Varnargarðar sem Vegagerðin hefur byggt hafa hægt á þessari þróun vestan Víkurár en austan hennar er fjaran að ganga nær byggðinni. Bygging varnargarðanna hefur haft í för með sér að stór sandsvæði verða til tímabundið í skjóli þeirra. Úr þessum svæðum fýkur sandurinn yfir þorpið en Landgræðslan og sveitarfélagið hafa reynt að verja byggðina fyrir þessu í áratugi. Vandinn er óstöðug fjaran og vöntun á grónum svæðum til varnar og til að fanga sandinn.

Virðulegur forseti. Það er vá þegar Víkurþorpi er ógnað af stöðugu landbroti og ágangi sjávar og sandfoki. Nú er komið að þeim tíma að grípa verður til enn frekari aðgerða og verja líf og eignir íbúa í Vík sem eru í hættu. Austan Víkurár þarf að bæta varnir gegn ágangi sjávar með nýjum og öflugum sjóvarnargörðum og koma böndum á sandfok og landeyðingu. Sveitarfélagið, Vegagerðin og Landgræðslan hafa unnið að mögulegum lausnum.

Virðulegur forseti. Stjórnvöld verða að beita sér fyrir fjármögnun aðgerða sem duga til að vernda þorpið í samstarfi við áðurnefnda aðila. Ekkert þéttbýli á Íslandi býr við aðra eins stöðugu náttúruvá og Vík í Mýrdal um þessar mundir. Það er skylda þingsins að tryggja öryggi íbúanna og byggðina í Vík í Mýrdal.