152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

orkuskipti í þágu loftslagsmála og sjálfbærrar framtíðar.

[14:44]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Forseti. Það er mikil umframeftirspurn og líklega óendanleg eftirspurn eftir einni verðmætustu vöru í heimi, endurnýjanlegri orku. Stundum er talað um orkuskort hér á landi sem er, held ég, gert til að afvegaleiða umræðuna um raforkuöflun en það er skortur. Það er tilfinnanlegur skortur á umgjörð um auðlindanýtingu hér á landi. Okkur vantar auðlindamódel sem tekur til allra náttúrulegra auðlinda okkar, umgjörð sem sér til þess að eigendur auðlindanna, almenningur í landinu, njóti arðsins af nýtingunni. Nú eru einkaaðilar að stíga inn á sviðið með afgerandi hætti, t.d. í vindorkunni, íslenskir og erlendir, og það þarf að ganga rækilega frá því að ábatinn af orkunýtingunni renni til eigandans, þjóðarinnar.

Er hægt að virkja í þágu orkuskipta? Í raun ekki. Það er ekkert í raforkulögum sem tryggir það. Það beinir athyglinni að þriðja orkupakkanum, því sívinsæla umræðuefni, og innleiðingu hans í löggjöfina. Eitt af því sem við höfum skuldbundið okkur til að gera er að skilgreina hverjir njóti alþjónustu eins og það heitir, það er kallað „Public Service Obligation“, og því forgangs til raforkunotkunarinnar. Sú skylda er lögð á herðar hins opinbera að skilgreina þennan forgang og sjá til þess að almenningur eigi aðgang að raforkunni. Við þurfum ekki að nefna nýleg dæmi um það hvernig það hefur klikkað. Við þurfum að skoða, herra forseti, hvernig innleiðing þriðja orkupakkans stendur og hvað það er sem við þurfum að leggja mesta áherslu á.

Við í Samfylkingunni erum m.a. þeirrar skoðunar að móta þurfi nýja eigendastefnu hins opinbera vegna orkufyrirtækjanna og auðlindanýtingarinnar, að styrkja þurfi flutningskerfið. Að sjálfsögðu þurfi að bæta orkunýtni og forgangsraða orkuskiptunum með innlendu orkuskiptin fremst og auðvitað þurfum við að afgreiða þriðja áfanga rammaáætlunar sem er sex árum á eftir áætlun. En það er ekki á ábyrgð stjórnarandstöðunnar. (Forseti hringir.) Byrjum á réttum enda, herra forseti, og setjum lagaumgjörðina.