152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[15:33]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég hef dálitlar áhyggjur af kosningalögum og bara lagasetningu almennt ef ég á að segja eins og er. Nú upplifðum við það í gær að hafa fengið ábendingar, mjög svo óbeinar, frá lögregluembættinu í Norðvesturkjördæmi og eftir alla vinnuna í kjörbréfanefnd í lok síðasta árs þá verð ég að segja að þær ábendingar ollu mér miklum áhyggjum, gríðarlega miklum áhyggjum, sérstaklega með tilliti til þess sem hv. formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sagði hér, að við höfum verið að reyna að setja knappan og skýran lagatexta og setja ákveðna framkvæmd í reglugerðir sem er ekkert óeðlilegt því að framkvæmd þarf oft að aðlagast breyttum aðstæðum. Það gerir það pínulítið að verkum að allt sem er innan framkvæmdarinnar, innan reglugerðarinnar, að það er ekkert skýrt hvað það varðar fyrr en alla vega er búið að setja fyrstu reglugerðina. Við erum ekki með þær aðstæður eins og er svo að ég viti til, sem er áhugavert því að þau skilaboð sem okkur bárust í gær voru að í nýjum kosningalögum væri ekki skýr lagaheimild fyrir því að telja það brot sem var augljóslega brot samkvæmt niðurstöðum þingsins í lok síðasta árs. Mjög áhugaverð niðurstaða.

Það má vissulega gera það þannig að ef einhver brýtur af sér fyrir mánuði síðan, segjum svo, og Alþingi samþykkir svo ný lög og gerir það sem var áður brotlegt ekki brotlegt lengur þá sleppur viðkomandi. Þannig er hægt að veita fólki réttindi eftir á. Það er ekki hægt að taka réttindi af fólki eftir á hins vegar. Ef einhver braut af sér fyrir mánuði síðan — eða réttara sagt braut ekki af sér fyrir mánuði síðan af því að það voru ekki til lög um það, en svo eru sett lög mánuði seinna sem gera það refsivert — þá er ekki hægt að refsa honum fyrir það eftir á. Það væri mjög ósanngjarnt. Það er bara réttarríkispæling.

Í því samhengi vil ég líta aðeins á núverandi kosningalög, sérstaklega 97. gr., 99. gr. og 136. gr. 97. gr. fjallar um frágang eftir slit kjörfundar þegar fólk er búið að greiða atkvæði, með leyfi forseta:

„Eftir að kjörfundi er slitið skal kjörstjórn ganga frá kjörgögnum og hefja talningu atkvæða.

Að fengnum tillögum landskjörstjórnar skal ráðherra í reglugerð setja nánari reglur um frágang kjörgagna eftir slit atkvæðagreiðslu, frágang og innsiglun kjörgagna ef senda á þau á annan stað til talningar og önnur atriði er snerta störf kjörstjórna að þessu leyti.“

Allt í lagi. Frekar eðlilegur lagatexti myndi ég segja sem nær utan um það hvað þarf að passa upp á. Nákvæmlega hvað er ekki verið að tilgreina í lagatextanum en það er þessi samfellda gæðastjórnun, þessi almenna gæðastjórnun sem þarf að fara fram hér í þinginu.

Í 99. gr., þar er aftur á móti að ráðherra setur reglugerð, að fenginni tillögu landskjörstjórnar, m.a. um framkvæmd talningar við almennar kosningar, — það skiptir máli — meðferð ágreiningsseðla, meðhöndlun kjörgagna og kjörskráa og um frágang að lokinni talningu, þ.m.t. um eyðingu kjörseðla og annarra gagna.

Nú snerist ágreiningurinn dálítið um hvort talningu hefði verið lokið eða ekki, hvort það hefði verið hlé á talningarfundi eða ekki og ýmislegt svoleiðis. Niðurstaðan var einhvers staðar sú að þetta hefði nú bara verið hlé á fundi. Sumar kjörstjórnir slitu talningarfundi og komu síðan aftur saman á nýjum fundi. Þetta var voðalega flókið og skiptir í rauninni ekki öllu máli því að meðhöndlun kjörgagnanna er það sem skiptir máli. Ef einhver ætlaði sér að setja framkvæmdarreglur um meðhöndlun kjörgagna á þann hátt að gestir og gangandi gætu gengið inn að kjörgögnunum á meðan það væri gert hlé á talningarfundi þá myndu allar erlendar eftirlitsstofnanir, og væntanlega gæðastofnanir hér á Íslandi líka, gera gríðarlega stóra athugasemd við slíka framkvæmd talningar og meðhöndlun kjörgagna. Það myndi enginn kvitta upp á að slíkt væri leyfilegt enda gerði kjörbréfanefnd það ekki. Það var bara lögbrot að gera þetta svona. Hvað það þýddi síðan í samhengi við kosningarnar og niðurstöður kosninganna var eitthvað sem við vorum ekki alveg sammála um. En við vorum öll sammála um það að ekki var rétt farið með þetta. Það mun enginn — mig dreymir ekki einu sinni um að þeim ráðherra sem við erum með núna í þessum málaflokki detti í hug að setja einhvers konar reglugerð sem gerir það að verkum að allt sé í fína lagi ef gestir og gangandi geta gengið inn á kjörgögn þegar enginn annar er á staðnum.

Þá komum við að 136. gr. sem fjallar um minni háttar brot. Það varðar sektum, nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum, ef sveitarstjórn, kjörstjórn, utankjörfundarkjörstjóri eða embættismaður hagar fyrirskipaðri framkvæmd — þá með tilliti til t.d. 99. gr. — laga þessara vísvitandi á ólöglegan hátt eða vanrækir hana. Með tilliti til þess sem gerðist í Norðvesturkjördæmi í síðustu kosningum erum við a.m.k. að tala um vanrækslu, að lágmarki. Skilaboð sem við fáum frá lögregluembættunum um að þarna sé það bara túlkað þannig að ekki sé skýr heimild í lögum til að vísa í þessa vanrækslugrein finnst mér stjarnfræðilega skrýtið. Í alvörunni. Það þarf gríðarlega lipra lagatúlkun til að ímynda sér að nokkur muni leyfa nokkrum manni, öðrum en þeim sem á að bera ábyrgð á talningunni, að rölta um svæðið á meðan talningarfólk er ekki til staðar og yfirkjörstjórn. Slíkt ímyndunarafl er úr einhverjum öðrum heimi.

Það er þaðan sem ég nálgast vandann sem ég glími við í sambandi við lagasetningu hérna. Við fáum einhvern veginn aldrei þetta gæðaferli, gæðastjórnun á þau frumvörp sem við erum með hérna. Við erum komin með ágætisramma utan um það hvernig áhrif þetta hefur á stjórnarskrá o.s.frv. en það sem vantar er gæðastjórnunarhugsun. Hvernig virkar hún? Hún virkar á þann hátt að þegar við ímyndum okkur ákveðið kerfi eins og kosningar þá hugsum við um hver sé tilgangur þess kerfis. Hvaða lausnir erum við að búa til? Hvaða vandamál er verið að leysa? Hvað getur gerst á meðan fólk er að umgangast það kerfi? Það kallast á forritunarmáli notendasögur. Ein notendasaga er að kjósandi mætir á kjörstað, veit ekki í hvaða kjördeild hana á að fara, mætti á rangan stað meira að segja, og ætlar að reyna að greiða atkvæði — hvað gerist þá? Hvernig bregst kerfið við slíku? Það er ein notendasaga. Það sem gerist síðan þegar búið er að setja upp reglugerðina í þessu tilviki er að þar eru komnar leiðbeiningar um hvernig á að bregðast við því. Það að vera með svona notendasögur gerir það að verkum að við getum nálgast lögin á þann hátt að við getum raunprófað þau til að sjá hvort þau standist kröfur eða ekki. Þetta er gríðarlega mikilvægt tæki í gæðaeftirliti. Það kemur í veg fyrir mistök. Þá vitum við hérna á þingi að þessi lög — ekki nákvæmlega þessi en jú, svo sem í rauninni nákvæmlega þessi, þarna er t.d. verið að tala um ýmsar dagsetningar. Ef við værum með notendasögu og hérna kæmu stjórnmálasamtök og ætluðu að skrá sig til þátttöku í kosningunum og kæmu of seint — það vandamál hefði komið strax í ljós ef við hefðum prófað lögin með þeirri notendasögu að stjórnmálasamtök komi of seint. Af því að ýmislegt annað í ferlinu hefði misfarist þá hefði gallinn fundist. Án þess að vera með slíkar reynslusögur í rauninni þá finnum við ekki gallann. Það er nokkurn veginn ómögulegt í jafn stóru kerfi og kosningalögin okkar eru fyrir fólk bara að vera með það í hausnum. Þetta er það víðfeðmt, það eru það margir möguleikar. Það eru rosalega margir möguleikar á það hvernig fólk merkir atkvæði sitt á atkvæðaseðil. Ég hef verið í nokkrum kjörbréfanefndum og útfærsluna sem maður sér á því hvernig fólk merkir X eru miklu fleiri en fólk getur nokkurn tíma ímyndað sér og ég skora á fólk að reyna. Ég veit að það er til bók þannig að fólk kemst ansi langt en það er ekki tæmandi listi, það er svona algengasti listinn.

Ef við nálgumst þetta verkefni með hugarfarinu gæðaeftirlit og gæðastjórnun þá hugsum við það öðruvísi hvernig lögin eru búin til. Við byrjum á að búa til nokkurs konar notkunarmöguleika. Við byrjum á að búa til stjórnmálaflokkinn sem ætlar að skrá sig. Við byrjum á að búa til fatlaða einstaklinginn sem ætlar að greiða atkvæði og þarf aðstoðarmann. Við byrjum á að búa til talningarteymi sem fær alls konar mismunandi atkvæðaseðla í hendurnar til að skoða og meta hvort séu gildir eða ógildir. Við byrjum á að fá umboðsmenn flokka til að geta ímyndað okkur í hvaða vandamálum þau lenda. Það var fullt af vandamálum sem umboðsmenn lentu í og á hvaða ábyrgð er það að sinna þeim vandamálum? Ekkert af þessu er skýrt. Allir eru að vinna í ákveðinni óvissu og giska á það hvernig á að fara með þessa hluti og ekki.

Það er vandamálið í Norðvesturkjördæmi í síðustu kosningum í algjörri hnotskurn. Þar sáum við mismunandi framkvæmd á kosningum, bæði 2021, 2017, 2016 og fyrr, einfaldlega bara eftir því hverjir voru í yfirkjörstjórn. Það var mismunandi reynsla þar á bak við. Einhverjir gerðu þetta bara eins og þeir gerðu síðast en þá komu kannski upp sömu vandamál. Í öðru kjördæmi var allt öðruvísi framkvæmd. Það er eitt af atriðunum sem voru krafan og krafturinn í því að fara út í breytingar á kosningalögunum, að framkvæmdin var mismunandi á mismunandi stöðum. Við fengum sögur af því hvernig skjalataska fannst með utankjörfundaratkvæðum, minnir mig að hafi verið, í Suðurkjördæmi fyrir einhverjum kosningum síðan. Fjöldi þeirra atkvæða gerði það að verkum að það hefði ekki skipt neinu máli hvernig þau atkvæði hefðu fallið, það hefði ekki breytt neinu, en það voru samt einhver 10–20 atkvæði sem voru í rauninni ekki talin. Það var bara ákveðið að stinga þeim undir stól. Það var búið að loka atkvæðagreiðslunni og telja allt og gefa allt út — og bara vúps, æ, æ. Þarna hefði ákveðin talning og vottun á því hversu mörg atkvæði voru greidd og hversu mörg atkvæði bárust átt að sýna að eitthvað vantaði upp á.

Það hefur verið bætt úr þessu síðan þá. Þetta varð til þess að við lærðum en þetta er ekki eitthvað sem við eigum að læra, þetta er eitt af grundvallaratriðum þess að sinna gæðaeftirliti í öllu ferlinu, frá því að kosningar hefjast og þangað til kosningum lýkur og niðurstöður eru kynntar. Mig langar bara til að ítreka það hversu mikilvægt það er í svona grundvallarmáli lýðræðis sem kosningar eru að við getum haft einmitt þessa notendasögu, sem ég vil kalla, og ég bara yfirfæri úr forritunarumhverfinu. Þær eru algjört lykilatriði til að lýsa því hvernig kerfið virkar og hvernig notendur nálgast kerfið, hvernig ungt fólk sem hefur aldrei kosið nálgast kerfið. Í fyrsta sinn sem ég kaus var kjörseðillinn með þessum táknum, bókstöfum sem maður átti að merkja við. En það var enginn kassi fyrir framan bókstafinn og ég vissi ekkert hvar ég átti að setja kross. Ég hafði ekki hugmynd um það. Ég fór og spurði. Það fara ekki allir að spyrja og merkja einhvern veginn öðruvísi á seðilinn. Síðan þá er búið að bæta við sérstöku boxi fyrir framan bókstafina til þess að merkja inn í. Það var ekki þannig einu sinni. Núna í ákveðnum prófum sums staðar þarf að skyggja inn í allan reitinn til að merkja við reit, í prófum sem eru skönnuð sjálfkrafa. Sumir eru farnir að krassa í reitinn og það hefur gert það að verkum að þeir seðlar eru ógildir. Merkilegt mál. Margt svona sem við þurfum að gera betur og ég held að við þurfum að innleiða aðra hugsun í það bara almennt hvernig við vinnum lög og þá einbeita okkur meira að gæðaferli.