152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[17:20]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir fyrirspurnina og vangavelturnar. Meðan hún var í seinna andsvari þá rifjaðist eitt aðeins upp, af því ég var spurður um það í fyrra sinnið hvort ég minntist einhvers sérstaks úr kosningaeftirlitinu í Rússlandi. Auðvitað er það þannig að þegar maður er í kosningaeftirliti þá máttu ekki skipta þér af neinum, mátt bara horfa á og jafnvel þótt þú sjáir einhver kosningabrot framin fyrir framan augun á þér þá máttu ekki bregðast við því, átt bara að horfa og skrásetja. En eitt sem rifjaðist upp fyrir mér var t.d. að fólk fór í unnvörpum saman inn í kjörklefana sem mátti ekki, heilu fjölskyldurnar saman og annað. En það átti sér kannski skýringar líka í því að þarna var læsi t.d. ekki jafn almennt og hér og fólk þurfti hreinlega leiðbeiningar í þessu ferli öllu sem var í gangi þá, svo ég rifji það nú upp einnig.

Varðandi vinnuna fram undan þá er auðvitað rosalega mörgum spurningum ósvarað. Ég hef viljað nálgast þessa umræðu hérna í dag ekki út frá því að vera endilega að benda fingrum á eitthvað eða leita að sökudólgum eða velta mikið vöngum yfir því hvar nákvæmlega hlutir hafa misfarist eða ekki. Punkturinn minn er bara þessi: Þegar við fáum þetta í fangið í gær ofan í þetta mál sem við erum með í dag þá megum við ekki kasta til höndum. Við þurfum bara að fara rosalega vel yfir það hvernig við ætlum að spila úr þessu og ég vonast til þess að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd geri það af krafti og veit að svo muni verða. Hvernig möguleg meðferð Mannréttindadómstólsins út af þeim málum sem við vorum að ræða hérna áðan verður og hvernig því öllu saman muni lykta — ég treysti mér lítið til að segja til um það. (Forseti hringir.) En auðvitað er það risastór spurning sem hangir yfir okkur allan tímann í þeirri vinnu sem fram undan er.