152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

kosningalög og starfsemi stjórnmálasamtaka.

424. mál
[18:26]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek það fram að ég er alveg sammála hv. þingmönnum sem hér hafa talað um að núverandi kerfi hafi ekkert hjálpað okkur sérstaklega vel, þannig að það er ekki svo einfalt að halda því bara eins og það er. En við erum náttúrlega komin með mjög skuggalega þróun og Norðmenn skilgreina það sem meiri háttar byggðavanda ef Oslóarsvæðið verður meira en 25% af landinu. Við erum komin upp í 65% og það eru fjögur lönd sem eru á sama stað fyrir utan Vatíkanið og einhver smáríki, það er Djíbútí í Afríku, það er Panama, Mongólía og Kúveit, ekkert af þeim löndum sem við viljum endilega bera okkur saman við. Ég bendi á að þetta snýst ekki bara um fólksfjölda. Þetta snýst um að fólk geti unnið við alla mögulega hluti þar sem það vill og núna erum við bara komin með svo ofboðslegan segul hingað á höfuðborgarsvæðið. Það er svo mikið af fólki sem flytur hingað, fólk sem fer í háskóla og menntar sig í alls konar sérgreinum, sem flytur ekki til Reykjavíkur af því að það vill flytja til Reykjavíkur, það flytur til Reykjavíkur af því að það þarf að flytja til Reykjavíkur. Við höfum auðvitað séð heilbrigðisþjónustu af illri nauðsyn breytast dálítið með fókusinn á þetta stóra sérgreinasjúkrahús. Við höfum talið að það væri gáfulegt að hafa dómstólana, Alþingi, háskóla, mestu menningarstofnanir okkar á þessum stað af því að við erum fámenn þjóð í stóru landi. En ég bara ítreka spurninguna: Við getum breytt þessu með jafnvægi flokka, en telur hv. þingmaður ekki að við þurfum samhliða hinni breytingunni að fara í markvisst átak með að það verði þá þannig að á Akureyri og fyrir austan og fyrir vestan verði a.m.k. sú þjónusta, sá möguleiki til atvinnu og þær stofnanir sem gera okkur kleift að ná meira jafnvægi?