152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

um fundarstjórn.

[18:55]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Gagnrýni okkar í stjórnarandstöðu er í rauninni einskis virði ef við kunnum ekki að hrósa líka. Þetta er tvímælalaust þess virði að hrósa fyrir. Hér liggja fyrir tvö verkefni hæstv. ráðherra, annars vegar endurskoðun á þessum lögum eftir ábendingar umboðsmanns Alþingis en einnig það verkefni sem snýr að framkvæmdinni sem hefur verið gagnrýnd. Það kom alveg fram í umræðunum hér í gær að vinnulagi virðist ekkert hafa verið breytt, enn sé verið að beita þessum tæknilegu mannréttindabrotum þrátt fyrir að enn sé ekki lagastoð fyrir þeim. Það sem er erfitt er að þegar það verkfæri er til staðar þá er einhvern veginn auðveldara að beita því, menn leita ekki annarra lausna. Ég held að á meðan verið er að komast að niðurstöðu verði að leita logandi ljósi að öllum mögulegum lausnum öðrum en mannréttindabrotum.