152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

landlæknir og lýðheilsa.

414. mál
[19:15]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins til að botna forvarnagildið og þá gagnasöfnun sem á sér stað við skimanir. Ég kom inn á það í framsöguræðu að þetta væri lýðgrunduð skimun en þá er heildargagnasöfnunin nauðsynleg. Kannski er það mikilvægasta að geta metið hver verður árangurinn. Kannski er kjarninn í þessu að við förum líka að horfa ekki bara á sjúkraskrána sem tekur niður nafn, heimili og kennitölu heldur árangurinn af skimunum. Það er það sem við verðum að horfa til. Svo skal ég bara játa að ég var að lesa þessi svör sem eru unnin af sérfræðingum í ráðuneytinu og staldraði einmitt við þennan punkt og hugsaði bara: Hér er alla vega tilnefni til að skoða hvaða burði við höfum til að halda uppi raunverulegu eftirliti.