152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

landlæknir og lýðheilsa.

414. mál
[19:17]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Vegna þess hversu mikilvæg heilbrigðisþjónusta skimun fyrir krabbameinum er hefur verið átakanlegt að fylgjast með því undanfarið eitt og hálft ár hversu illa hefur verið komið fyrir þessari þjónustu í kerfinu. Það var ákveðið að flytja greiningu á leghálssýnum úr landi, á danska rannsóknarstofu, án þess einu sinni að spyrja Landspítalann á sínum tíma hvort hann gæti kannski séð um þetta. Svo kom bara í ljós að Landspítalinn átti allar græjur og ekkert mál, hann gat gert það. Það hefði komið í veg fyrir margar andvökunætur hjá fólki sem var að bíða eftir niðurstöðum. Það hefði jafnvel bjargað einhverjum frá því að greinast of seint með krabbamein. En gott og vel, nú horfir framkvæmdin til betri vegar.

Ég hnýt um það í greinargerðinni að sagt er að það hafi verið talið réttlætanlegt fyrst um sinn að fela heilsugæslunni rekstur skimunarskrár á meðan yfirfærslan ætti sér stað. Réttlætanlegt? Ber þá að skilja það sem svo að síðasta rúma árið hafi skimunarskrá verið rekin án fullnægjandi lagagrundvallar og að fyrst núna, rúmu ári eftir að þessi rekstur fluttist til hins opinbera, sé verið að smíða lagastoðina? Ég hefði bara gengið að því sem vísu að ef ráðuneytið hefði unnið þetta á grundvelli greininga og áætlana hefði það að tryggja lagagrundvöllinn verið fyrsta vers áður en allt var sett af stað.

Þannig að mig langar að spyrja, frú forseti: Af hverju í ósköpunum er þetta að koma núna en ekki fyrir einu og hálfu ári, áður en síðasti hæstv. heilbrigðisráðherra hleypt öllu í bál og brand í þessum málum?