152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[21:22]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030. Tillagan er byggð á stefnudrögunum sem heilbrigðisráðherra lét vinna vorið 2021 og framsetning hennar tekur mið af áherslum í samþykktri heilbrigðisstefnu til ársins 2030.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur helgað Heilbrigðri öldrun áratuginn 2021–2030. Um er að ræða stefnumótandi sýn sem lýtur að breytingu á viðhorfum í samfélaginu, samhliða virkni og þátttöku eldra fólks og nærsamfélagsins. Áhersla er á að þjónustan verði samþætt samhliða aukinni fjölbreytni og eflingu þjónustunnar hvað varðar stuðning við eldra fólk til að búa sem lengst sjálfstæðri búsetu. Og ég hygg að hér sé um að ræða lykilsetninguna þegar horft er til breyttra viðhorfa og aukinnar virkni í þessum aldurshópi.

Ör fjölgun í hópi eldra fólks er einstök áskorun, bæði hér á landi og á heimsvísu. Á sama tíma er ljóst að færri hendur verða til að sinna umönnun aldraðra í framtíðinni vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar. Það er því ljóst að nýta þarf tæknina eins og kostur er, leita nýrra lausna, aðferða og nýrra úrræða til að tryggja fullnægjandi þjónustu við aldraða.

Í lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, er heilbrigðisþjónustu skipt í þrjú stig. Fyrsta stigið er almenn heilsugæsluþjónusta og heimahjúkrun sem og hjúkrunarheimili. Annars og þriðja stigs heilbrigðisþjónusta er sérhæfðari heilbrigðisþjónusta. Meginþorri eldra fólks líkt og aðrir íbúar landsins sækir þjónustu á fyrsta stigi heilbrigðisþjónustunnar. Þurfi einstaklingar aukna þjónustu gerir skipulagið ráð fyrir að hún sé veitt á því þjónustustigi sem hæfir þörfinni. Þar er gert ráð fyrir að um 10–20% aldraðra þurfi mismikinn stuðning eða tímabundna aðstoð til að búa heima. Þau 4–5% sem mesta aðstoð þurfa flytja búferlum vegna dvalar á hjúkrunarheimili eða sækja þjónustuna á sjúkrastofnun.

Með þessari þingsályktunartillögu, um heilbrigðisþjónustu við aldraða, eru sett fram stefnumarkandi markmið þar sem horft er heildrænt á alla þætti, fyrsta stigs heilbrigðisþjónustu, almenna þjónustu og forvarnir, stuðning við að búa sjálfstæðri búsetu og loks hjúkrunarheimili, þ.e. á þjónustukeðjuna í heild. Horft er til mannfjöldaþróunar, forystu, þátttöku og virkni aldraðs fólks, samhæfingar, nýsköpunar og tækni og mannafla og fræðslumála í þjónustunni.

Í tillögugreininni er lagt til að Alþingi álykti um að aldrað fólk á Íslandi skuli búa við örugga og hagkvæma heilbrigðisþjónustu þar sem aðgengi allra er tryggt og áhersla lögð, eins og fyrr segir, á meginviðfangsefni heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Þar er stefnan og sýnin sett fram sem liggur hér til grundvallar, Forysta til árangurs, Rétt þjónusta á réttum stað, Fólkið í forgrunni, Virkir notendur, Skilvirk þjónustukaup, Gæði í fyrirrúmi og Hugsað til framtíðar. Þá er hugsunin sú, með þá framtíðarsýn sem hér er lögð til, að hún verði grunnur að vinnu verkefnastjórnar um stefnu í þjónustu við eldra fólk og þessi verkefnastjórn mun byggja á grunni þessarar stefnu í undirbúningi að aðgerðaáætlun. Sá vinnuhópur er skipaður til að vinna í samræmi við stjórnarsáttmála um þessi málefni, svo framtíðarsýnin, eins og ég hef hér reifað, hvað varðar aldraða, verði að veruleika. Hér er auðvitað um að ræða þverfaglega nálgun þar sem þetta skarast við verkefni annarra ráðuneyta og ljóst að samstarf þarf milli ráðuneyta og annarra stjórnvalda um verkefnið.

Við vinnslu þessarar þingsályktunartillögu var tekið tillit til umsagna sem bárust vegna fyrrgreindra stefnudraga sem heilbrigðisráðherra lét vinna 2021. Alls bárust 35 umsagnir en að auki voru drög að þingsályktunartillögunni birt í samráðsgátt stjórnvalda og bárust alls tíu umsagnir sem jafnframt hefur verið tekið tillit til. Það má kannski segja hér, hæstv. forseti, að eins og gjarnan er um svona stefnumarkandi mál er oftast hægt að hnýta endalaust við athugasemdum og ábendingum um viðbætur. Það er reynt að ramma þetta inn í þessi heildarmarkmið stefnu um heilbrigðisþjónustu til 2030 en þó var það sammerkt með þessum ábendingum og umsögnum öllum að þessu máli, og hugmyndafræðinni í því, er fagnað og tekið undir þau meginsjónarmið sem við sjáum hér sett fram í lykilstefnuviðmiðum tillögugreinarinnar.

Ég ætla að fara stuttlega yfir þessi lykilviðfangsefni. Undir lið 1 í tillögunni, sem heitir Forysta til árangurs, eru stefnumiðin til ársins 2030 m.a. þau að endurskoða löggjöf um réttindi, þátttöku og skipulag við þjónustu við eldra fólk. Það er ljóst að við endurskoðun þeirra laga og reglna sem um málaflokkinn gilda er þörf á samráði og samvinnu milli ráðuneyta og þá helst ráðuneyti félagsmála. Þá er lagt upp með að skipaður verði þessi starfshópur sem ég vísaði til vegna áratugar heilbrigðrar öldrunar þar sem verður unnið að svæðisbundinni samræmingu heilbrigðis- og félagsþjónustu. Jafnframt er stefnt að því að auka við sérstakan stuðning og úrræði við aðstandendur sem sinna umönnun.

Undir lið 2 í tillögunni, Rétt þjónusta á réttum stað, eru stefnumiðin til ársins 2030 m.a. þau að skapa heildrænt kerfi sem á að tryggja samfellda þjónustu við notendur á réttu þjónustustigi hverju sinni, auk þess að gæta að hagkvæmni og jafnræði við veitingu heilbrigðisþjónustu. Til að ná þeim markmiðum er lagt upp með að þjónustan við notendur verði persónumiðuð og samþætt. Heilbrigðisþjónusta heim til notenda verði einstaklingsmiðuð, þverfagleg þjónusta sem byggir á heildrænu mati þar sem heilsugæslan er grundvallareining heilbrigðisþjónustunnar. Áhersla verði á velferðartækni, mat fyrir þjónustuþörf samræmt og möguleikum eldra fólks til að halda heimili með eða án stuðnings verði fjölgað.

Undir lið 3 í tillögunni, Fólkið í forgrunni, eru stefnumiðin til ársins 2030 að tryggja mönnun heilbrigðisþjónustunnar til lengri tíma og öruggt og gott starfsumhverfi fyrir starfsfólk. Þannig verði menntun og þjálfun starfsfólks sem veitir öldruðu fólki heilbrigðisþjónustu í samræmi við kröfur um gæði þjónustunnar auk þess sem samráð við heilbrigðisstéttir um úrvinnslu aðgerða verði tryggt.

Undir lið 4 í tillögunni, Virkir notendur, eru stefnumiðin til ársins 2030 að stuðla að virkri og ábyrgri þátttöku notenda heilbrigðisþjónustu. Með því er átt við að aldrað fólk og aðstandendur þess hafi aðgang að samræmdum heildarupplýsingum um þjónustuframboð á öllum stigum heilbrigðisþjónustu. Aldrað fólk hafi aðgang að þjónustu með velferðartækni óháð búsetu. Framkvæmdar verði reglubundnar þjónustukannanir og aukin áhersla verði lögð á að vinna gegn einmanaleika, m.a. með auknum forvörnum, aukinni virkni og þátttöku aldraðs fólks.

Undir lið 5 í tillögunni, Skilvirk þjónustukaup, eru stefnumiðin til ársins 2030 að stuðla að hagkvæmum kaupum á heilbrigðisþjónustu í samræmi við stefnu stjórnvalda og þarfir notenda. Áherslan í því samhengi verði á að endurskoða fjármögnunarkerfi vegna dvalar og langtímaumönnunar á hjúkrunarheimilum. Settar verði samræmdar reglur um innihald þjónustunnar í dagdvalarrýmum sem og forgangsröðun einstaklinga í þjónustuna. Auk þess verði sett viðmið um fjölda hjúkrunarrýma á hverju svæði.

Undir lið 6, Gæði í fyrirrúmi, eru stefnumiðin til ársins 2030 að tryggja gæði og öryggi heilbrigðisþjónustunnar. Þannig verði innleidd einstaklingsbundin þjónustuáætlun sem byggir á heildrænu öldrunarmati. Aðgengi að samræmdum upplýsingum verði aukið, húsnæði hjúkrunarrýma sem standast ekki viðmið um aðbúnað og persónulegt rými verði endurbætt, umbreytt í aðra þjónustu við aldraða eða þeim lokað. Hjúkrunarheimili uppfylli þá gæðavísa sem embætti landlæknis leggur áherslu á hverju sinni og reglulegt gæðaeftirlit verði með öllum hjúkrunarheimilum á Íslandi.

Undir lið 7, Hugsað til framtíðar, eru stefnumiðin til ársins 2030 þau að tryggja að menntun, vísindi og nýsköpun stuðli að áframhaldandi þróun heilbrigðisþjónustu. Rannsóknarstofa Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum verði efld og falin verkefni til nýsköpunar, þróunar og rannsókna á sviði öldrunarfræða og öldrunarþjónustu. Þá verði hlutur velferðartækni í allri þjónustu sem veitt er aukinn og áhersla verði lögð á nýsköpun og vísindi í þjónustu við aldrað fólk.

Til að hrinda þessari framtíðarsýn í framkvæmd, sem tillagan byggir á, verða gerðar áætlanir um aðgerðir til fimm ára í senn í samráði við helstu hagsmunaaðila. Þær áætlanir verða síðan uppfærðar árlega.

Ég hef nú farið yfir meginkjarnann í þessari tillögugrein og uppsetningu hennar. Þetta eru háleit markmið. En ég vil segja hér, hæstv. forseti, að það er nauðsynlegt, það er óhjákvæmilegt, að við förum að horfa til þessara þátta. Við munum ekki geta haldið áfram á þeirri vegferð að byggja hjúkrunarheimili undir alla eða gera ráð fyrir því að þannig verði það. Við verðum að horfa til virknigetunnar og við verðum að styðja við fjölbreytt búsetuúrræði. Við verðum að auka hér verulega áherslu á dagdvalarrými, heimahjúkrun og forvarnir, af því að við ræddum það hér í samhengi við skimanir, allan aldursskalann. Það er hægt að gera ótrúlega marga hluti, það er hægt að gera ótrúlegustu hluti, allan aldursskalann í forvörnum. Það verður ekki undan því vikist að fara hér fram með háleita framtíðarsýn og markmið og stefna að þessu. Ég veit að það er ekki allt fullkomið í okkar heimi, hvorki í heilbrigðisþjónustu né á öðrum sviðum, en ég horfi jákvætt til þessarar tillögu, sem er um markmiðin. Hún talar til að mynda inn í það stefnumótandi umhverfi sem lög um opinber fjármál eru að móta og við erum að bæta okkur á þessu sviði. Hér þarf síðan aðgerðaáætlunin að fylgja sem verður þá kostnaðarmetin og talar við þessa stefnumótun sem við erum að fjalla um.

Ég hef, virðulegi forseti, gert grein fyrir meginefni tillögunnar sem er hér til umræðu. Ég leyfi mér að leggja til að henni verði að lokinni fyrri umræðu vísað til hv. velferðarnefndar og síðari umræðu.