152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[21:36]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina á þessari þingsályktunartillögu. Ég var aðeins hugsi þegar ég sá titilinn Tillaga til þingsályktunar um mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða. Þetta er auðvitað bara formið en ég er svo hrædd um að þetta verði kannski ekki nógu markvisst. Það er kannski það fyrsta sem ég vil aðeins flagga, að titillinn ber með sér að þetta verði ekki nógu markvisst. Nú er ég búin að eyða allt of miklum tíma í eitthvað sem skiptir engu máli. Jæja, það verður að hafa það.

Það sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í er búsetuform fyrir eldra fólk. Ég tek undir orð hæstv. ráðherra. Það er ekki lausn að byggja endalaus hjúkrunarheimili fyrir alla. Við þurfum að horfa á þetta miklu víðar og frekar út frá því, eins og tillögur okkar í Samfylkingunni voru í aðdraganda kosninga og við munum leggja fram frekari tillögur þess efnis, að búa til búsetukjarna sem tekur líka aðeins á því sem er bara einmanaleiki og öryggiskennd. Með aukinni heimaþjónustu er í rauninni ekki verið að horfa til þess að í stóru einbýlishúsi í hverfi í Vesturbæ býr ein manneskja sem hefur misst maka sinn og finnur ekki til öryggis heima þó að viðkomandi sé langt í frá orðinn það heilsuveill að þurfa að komast inn á hjúkrunarheimili en vantar bæði félagsskap og öryggistilfinningu. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra út í hvort verið sé að hugsa frekar um einhvers konar búsetukjarna en kannski þessi eiginlegu hjúkrunarheimili.