152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[21:48]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og sérstaklega af því það var mjög jákvætt. Þar sem ég veit að hæstv. ráðherra hlustar þá veit ég að þessu verður kippt í lag.

Mig langaði aðeins að tengja við ræðu sem ég flutti hér fyrr í dag. Hér erum við að tala um aðgerðir til næstu 30 ára — ef ég man rétt sagði hæstv. ráðherra næstu fimm ára fyrst — að við séum að mæla þetta allt saman mjög vel, að við áttum okkur á því hvernig staðan er núna og í aðgerðaáætluninni séu sett ekki bara markmið sem hljóma vel og eru fögur orð heldur mælanleg markmið sem hafa dagsetningar og að sjálfsögðu kostnað og ekki alltaf notað það sem kemur í sumum frumvörpum, „þetta er innan áætlunar“ — okkur langar samt að vita hvað það kostar þó að það sé innan áætlunar. Það sama gildir um þetta og forvarnirnar sem við vorum að ræða áðan, að talnagögnin séu nýtt til þess að keyra áætlunina áfram til þess að við getum mælt það sem verið er að gera og séð árangurinn, og bara svona af því að við erum í stjórnmálum: Það er rosalega gott fyrir stjórnmálamann eða ráðherra að geta sagt: Já, þetta gerði ég. Hér eru tölurnar sem sanna það.