152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[22:13]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirferð hans og tölu. Mig langar að byrja í fyrra andsvari að spjalla við hv. þingmann um stöðuna á Suðurnesjum varðandi hjúkrunarheimili, varðandi annars konar búsetuform, af því að ég er aðeins með það á heilanum hvernig við einhvern veginn förum klaufalega að. Hv. þingmaður hefur oft komið inn á þjónustu við íbúa á svæðinu og hvernig íbúar á Suðurnesjum fá bara skerta þjónustu miðað við íbúa á öðrum svæðum. Ef við tölum t.d. um heilsugæsluna hefur fjöldi íbúa á svæðinu í rauninni engan heimilislækni. Maður fer að velta fyrir sér: Hvernig er þá staðan með eldri íbúa á svæðinu sem þurfa einhvern veginn að ná einhverju sambandi inn til að ná sér í þjónustu? Það er nú þannig að okkur er vísað mjög mikið á heilsugæsluna og það hefur aukist mjög mikið sem þessi fyrsta stigs þjónusta sem við eigum endilega að sækja því að hún er ódýrust. Ef hv. þingmaður getur aðeins frætt okkur um þá stöðu á Suðurnesjum.