152. löggjafarþing — 52. fundur,  15. mars 2022.

mótun stefnu í aðdraganda aðgerðaáætlunar í heilbrigðisþjónustu við aldraða til ársins 2030.

418. mál
[22:34]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég var að reyna að finna á hinu víðfeðma interneti skýrslu um fjöldann hér á landi, ég finn hana ekki. Ég veit til þess að það hefur aðeins verið brugðið á það ráð að eldri fíklar hafi fengið einhvers konar langtímaúrræði, t.d. á Hlaðgerðarkoti en skilyrði fyrir að vera þar er auðvitað að vera í meðferð, þá er fólk ekki að nota.

Ég veit líka af því að eldri einstaklingur í virkri neyslu, virkri áfengisneyslu, sem var kominn inn í þjónustukjarna, missti húsnæðið vegna áfengisneyslu. Viðkomandi var samt með íbúð og bjó þar og þetta er heimili viðkomandi og þá er spurningin: Hver ætlar að taka ákvörðun um það að viðkomandi geti ekki búið þar lengur? Hvenær gerist það með þann sem er yngri en 67 ára? Auðvitað ef það er háreysti og ónæði og allt það þá skilur maður það alveg en ég held að úrræðin til þess að þjónusta í rauninni einstaklinginn séu bara hvergi. Það er auðvitað alveg svakalegt af því að þetta fólk er til, þó að það sé fátt. Þeir sem eru í mikilli neyslu glíma auðvitað oft við mikinn heilsubrest og lifa ekki jafn lengi en það er allur gangur á því.