152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

laun forstjóra ríkisfyrirtækja.

[15:34]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Enn og aftur berast fregnir af ofurlaunum forstjóra fyrirtækja í opinberri eigu og enn og aftur hrista ráðherrar og aðrir ráðamenn höfuðið og láta á sama tíma eins og þetta sé eitthvað sem þeir ráði bara ekkert við og geti ekkert gert í. En er það svo? Nú er ljóst að forstjóri Landsvirkjunar var með meira en 43 milljónir í árslaun, eða 3,6 millj. kr. á mánuði, og forstjóri Isavia með 42 milljónir, sem gera 3,5 milljónir á mánuði. Á sama tíma eru meðallaun í landinu innan við 700.000 kr. á mánuði, eða um 8,4 milljónir á ári, og algeng föst mánaðarlaun félagsmanna í Eflingu samkvæmt taxta eru um 370.000 kr., sem gera árslaun upp á um 4,5 millj. kr.

Enn er ekki búið að birta ársreikninga RÚV, Íslandspósts, Hörpu og Orkubús Vestfjarða, svo nokkur opinber ohf.-fyrirtæki séu nefnd, þannig að enn eru ekki öll kurl komin til grafar varðandi laun forstjóra þeirra. Það er þó ljóst að venjulegu launafólki, fólki sem margt er að fara í kjaraviðræður í haust, er algjörlega nóg boðið. Ríkisstjórninni ber skylda til að stöðva þessa oftöku launa. Það er varla hægt að kalla það annað en bilun þegar útvaldir forstjórar, sem lítil eftirspurn er eftir í raun, eru á meira en fimmföldum meðallaunum og nær tíföldum meðallaunum Eflingarfólks.

Þessa bilun verður að stöðva og í því samhengi vil ég benda á að það eru stjórnmálaflokkar sem skipa sitt fólk í stjórnir þessara fyrirtækja. Meiri hluti stjórna ohf.-fyrirtækja ríkisins eru þannig skipaðar fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna. Þetta fólk hefur í umboði ríkisstjórnarinnar samþykkt þessi launakjör. Ég spyr því: Finnst ráðherra það eðlilegt að ríkisstarfsmenn séu með 43 milljónir í laun á ári? Og ætla ríkisstjórnarflokkarnir að leggja blessun sína yfir þessar illa grunduðu ákvarðanir stjórnarfólksins sem starfar í þeirra umboði með því að aðhafast ekkert? Hvers konar skilaboð eru það inn í kjaraviðræður haustsins? Eða munu ríkisstjórnarflokkarnir ganga á undan með góðu fordæmi og svipta fólk, sem hefur látið þetta líðast á sinni vakt, umboði sínu og skipa annað fólk í staðinn sem verður vonandi hæfara?