152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

viðskiptaþvinganir vegna kjörræðismanns Hvíta-Rússlands.

[15:46]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svarið sem eftir því sem ég best heyrði var í raun endurtekning á því sem þegar hefur komið fram og fól ekki í sér svar við spurningu minni sem snýst um þá umræðu sem er mjög sterk og fólk fullyrðir með vísan til margra heimilda að aðkoma Íslands sé þarna fyrir hendi, og hvað það er sem hæstv. ráðherra sé að gera til að upplýsa um þessa stöðu.

Þá vil ég vísa til ummæla hæstv. ráðherra sem hún hefur svo sem rakið hér og tímans vegna ætla ég ekki að endurtaka það. En það varðar að í lok árs 2020 varð eitthvert umtal um það að umræddur auðjöfur myndi lenda á einhverjum lista af þessu tagi og þá hafði utanríkisráðuneytið kallaði eftir upplýsingum, líkt og hæstv. ráðherra nefndi. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra um þessi samskipti í lok árs 2020. Hefur hún upplýsingar um að starfsmaður (Forseti hringir.) á vegum íslenskra stjórnvalda hafi beitt sér með einhverjum hætti gagnvart því hvort nafn hans myndi birtast á þessum lista (Forseti hringir.) og þar á ég við hvort sem er starfsmenn utanríkisráðuneytisins, sendiráðsins í Brussel eða aðra starfsmenn (Forseti hringir.) erlendis á vegum ráðuneytisins eða íslenskra stjórnvalda almennt?