152. löggjafarþing — 53. fundur,  21. mars 2022.

viðskiptaþvinganir vegna kjörræðismanns Hvíta-Rússlands.

[15:47]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég hef ekki upplýsingar um að það hafi verið gert en þau samskipti sem fram fóru í lok árs 2020 gengu út á það að utanríkisþjónustan spurðist fyrir og aflaði upplýsinga um það hvort hann yrði á umræddum lista eða ekki. Síðan þá hafa fleiri nöfn verið sett á þann lista, hann ekki. Á bandaríska listanum er hann ekki, á breska listanum er hann ekki og þar erum við ekki í neinu samfloti eins og við erum í í Evrópusambandsákvörðunum þar sem við fylgjum og höfum tekið þátt í öllum slíkum aðgerðum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef og þeim gögnum sem ég hef innan úr ráðuneytinu var þess ekki krafist að hann yrði tekinn af lista en upplýsinga aflað og sendiráð og utanríkisþjónustan nýtt til að spyrjast fyrir um það hvort hann yrði á lista í desember 2020.